Galdrabókin í Skálholtskirkju

Þegar séra Eiríkur að Vogsósum var í Skálholtsskóla, höfðu skólapiltar heyrt, að galdramaður einn væri grafinn undir biskupsfrúarsætinu í kirkjunni, og hefði hann látið grafa með sér galdrabók sína. Þeir réðu með sér að vekja hann upp, og er sagt, að þeir færu allir til nótt eina. Þeir tóku nú að særa, þar til er draugur kom upp með bók undir hendinni, og var allófrýnilegur. Þeir, sem hugaðastir voru, gerðu tilraun til að ná bókinni, en þess var enginn kostur, að draugurinn vildi láta hana lausa; gekk svo um hríð. Loksins reyndi Eiríkur til þess að ná bókinni, og lá hún þá laus í handarkrika draugsins. Eiríkur las í henni litla stund og skilaði henni svo aftur, er hann sá, að draugurinn vildi taka við henni. Eftir það fór draugurinn ofan í gröf sína með bókin undir hendinni, og urðu skólasveinar fegnir að losast við hann, því að enginn þeirra treysti sér til þess að temja hann. Seinna sagði sér Eiríkur séra Hafliða Bergsveinssyni að Hrepphólum (†1773), að hann hefði numið svo mikið af bókinni, að hann gæti séð við öllum glettingum fjölkynngismanna.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 180
(eftir sögn Sigríðar konu Andrésar í Gautsdal í Geiradal. Hún hafði eftir sögn Guðrúnar móður sinnar. Hún hafði eftir sögn Ingibjargar móður sinnar, en hún hafði eftir Hafliða presti sjálfum)

Mailing list