Tóbakið

Eitt sinn kom bóndi nokkur til séra Eiríks að Vogsósum langt að og bað hann að gefa sér upp í sig, því að hann var tóbaksvargur mikill, en var orðinn uppiskroppa með munntóbak. Prestur gerði það, en bóndi stakk tóbaksmolanum í vasa sinn. Bóndi hélt nú leiðar sinnar, og sáust þeir prestur ekki fyrr en að ári liðnu. Séra Eiríkur spurði bónda, hvernig honum hefði líkað tóbakið, sem hann gaf honum í fyrra. Bónda hafði þá ekki komið tóbak til hugar, síðan hann fékk upp í sig hjá presti; þreifaði nú niður í vasa sinn, fann tóbaksmolann og stakk honum þegar upp í sig. Eftir þetta tuggði hann tóbak, eins og hann hafði gert, áður en hann hitti séra Eirík.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 191
(eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar)

Mailing list