Blóðmörin og flyðran

Um þær mundir sem séra Hálfdan var prestur í Felli, bjó kerling ein á Tjörnum, og áttu þau oft glettur saman, því að kerling var ekki öll, þar sem hún var séð. Eitt sinn var það, að prestur var á sjó í kuldaveðri, og rauk þá vel á Tjörnum. Þá sagði einn hásetinn: „Gaman væri nú að eiga heitan blóðmör," – því þá grunaði, að húsfreyjan á Tjörnum væri að sjóða slátur. „Ætli þið ætuð hann, ef eg drægi hann hérna upp?" spurði prestur. Þeir héldu það. „Þið verðið þá að eta allir," sagði prestur, „og má enginn biðja guð að blessa sig." Þeir gengu að þessum kostum. Nú renndi prestur, og kom þá upp fullt blóðmörstrog. Þeir fóru nú að snæða allir nema einn, sem ekki gat komið neinum bita niður, en þegar þeir höfðu nýtekið til matar, stökk stóreflis flyðra út úr skutnum hjá þeim. Þá sagði prestur: „Alténd vill kerling hafa nokkuð fyrir snúð sinn." Sá, sem ekki gat etið blóðmörinn, dó skömmu seinna.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 165-166


Mailing list