Þjófarót

Þjófarót sprettur upp af vessa þeim, er fellur af líkum hengdra þjófa, en ekki er auðhlaupið að því að ná henni. Menn eiga að flétta hundsskinsreipi á sunnudag, meðan prestur er að lesa guðspjallið á stólnum, og binda það um frumsafrumsa naut. Því næst á að grafa um rótina með stálhnífi, hertum í mannsblóði, og á svo að láta nautið draga hana upp. Ekki verður þetta gert annan tíma en Jónsmessunótt. Þá er rótin slitnaði upp, varð svo hár hvellur, að þeim var vís bani, er fékkst við verk þetta, nema hann vefði áður skoffínsskinni um höfuð sér, en það dýr er afkvæmi refs og kattar. Eigi hleypur úr byssunni, þó að skotið sé á kvikindi þetta, nema mannskjúka sé fyrir. Ef rótin var geymd í hveiti og vökvuð eins og tilberi, þá dró hún peninga.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 148
(eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar)

Mailing list