Síra Jón Magnússon - þumlungur

Séra Jón Magnússon (1610-1696), kallaður þumlungur, tók við Eyri í Skutulsfirði 1644. Um miðja 17. öld fékk hann feðgana Jón og Jón Jónssyni frá Kirkjubóli í Skutulsfirði brennda fyrir að hafa ofsótt sig með göldrum. Virtust ofsóknirnar aðallega fólgnar í ofsjónum og alls kyns líkamlegum og andlegum kvölum. Veikindin hans bötnuðu þó ekki við dauða feðganna og sneri síra Jón sér þá að Þuríði, dóttur Jóns eldra. Henni tókst að hreinsa sig af áburði og svaraði fyrir sig með því að ákæra síra Jón fyrir ofsóknir.


Síra Jón skrifaði þá Píslarsögu síra Jóns Magnússonar sér til varnar. Þar fjallar hann um allt sem hann mátti þola og er píslarsagan einstætt verk í íslenskum bókmenntum, skrifuð af mikilli snilld í einhvers konar trúarlegri hugljómun sem einkennist af galdra- og vítishræðslu 17. aldar. Hins vegar verður hún að teljast varhugaverð sagnfræðiheimild.

Jón þumlungur sagði af sér prestskap 1689, afhenti staðinn ári seinna og lá síðustu æviár sín í kör. Sjá Kirkjubólsmál.

Mailing list