Jón Ólafsson - Indíafari

Image
Hollenskar duggur
Í lok 16. aldar fæddist að Svarthamri í Álftafirði maður sem átti eftir að ferðast víðar en nokkur annar þálifandi Íslendingur. Jón Ólafsson (1593-1679) var af venjulegum bændaættum en 22 ára gamall yfirgaf Jón sveitina sína og lagði af stað í ferðalag sem stóð í 11 ár. Hann kom heim reynslunni ríkari og löngu síðar, þegar hann var orðinn 68 ára gamall, skrifaði hann ferðabók, Reisubók Jóns Indíafara. Þar segir hann frá ótrúlegum ævintýrum sínum og ferðalögum.

Samkvæmt Reisubókinni hélt Jón frá Álftafirði til Englands og hafði viðkomu í heimsborginni London og í Noregi á leið sinni til Kaupmannahafnar þar sem hann gerðist byssuskytta Kristjáns konungs IV. Í þjónustu hans hátignar ferðaðist hann vítt og breitt um heiminn, til Svalbarða og Hvítahafs í Rússlandi og einnig fyrir Góðrarvonarhöfða til Indlands. Í þeirri ferð kynntist Jón Norður-Afríku sem hann kallaði Barbaríið, Kanaríeyjum sem hann hélt að væru Azoreyjar, Suður-Afríku, Madagaskar og eyjaklösunum við austurströnd Afríku sem Jón nefndi Ellefu þúsund eyjar, Sri Lanka og loks suðausturhluta Indlands þar sem Danir höfðu virki. Á heimleiðinni bættist Írland við áfangastaði Jóns.

Sem miskabætur fyrir örkuml sem hann hlaut í þjónustu Danakonungs fékk hann í ellinni að búa gjaldlaust á konungsjörðinni Eyrardal í Álftafirði sem var u.þ.b. þar sem kauptúnið Súðavík stendur í dag. Jón var tvíkvæntur og frá honum og seinni konu hans, Þorbjörgu Einarsdóttur, er komin fjölmenn ætt.

Mailing list