Magnús Jónsson - lögmaður í Miðhlíð

Magnús Jónsson (1600-1675) var sonarsonur Magnúsar prúða og og bjó á Miðhlíð og Haga á Barðaströnd og var sýslumaður þar mikinn hluta galdraaldar á móti frænda sínum Eggert Björnssyni hálfbróður sr. Páls í Selárdal.

Árið 1657 lét Magnús lesa upp bréf á héraðsþingi og segir mann nokkurn sem hann nafngreinir hafa oft hvíslað því í eyra sér að hann sé fullur með galdra og vegna þess að hann sé orðinn meiri kunnáttumaður en þeir sem kenndu honum sé hann hættur að refsa strákum og illræðismönnum. Í framhaldi af því sór Magnús fyrir allan galdur á þinginu og kærði jafnframt Runólf Þorvaldsson fyrir eikar- og surtarbrandsspjöld með rauðu galdrapári.

Til er bréf frá sr. Páli í Selárdal þar sem hann biður Magnús frænda sinn lengstra orða að segja ekki af sér embætti en biður hann jafnframt að hverfa frá hugmynd um að galdramenn fái að greiða sektir í stað húðláts. Páll telur að sú hugmynd gleðji engan nema Satan.

Mailing list