Sr. Páll Björnsson- í Selárdal

Image
Séra Páll í Selárdal
Síra Páll Björnsson (1621-1706) fæddist á Bæ á Rauðasandi, sonur Björns Magnússonar sýslumanns og Helgu Arngrímsdóttur lærða. Hann var sendur í Hólaskóla og útskrifaðist þaðan árið 1641 og fór sama ár til Kaupmannahafnar til náms við háskólann þar. Hann var síðan vígður til Selárdals þann 25. mars árið 1645 af Brynjólfi biskupi í Skálholti. Selárdalskirkja var þá meðal tekjuhæstu brauða landsins.

Sem prestur þótti Páll afburða ræðumaður og var hann talinn ganga næst Brynjólfi biskupi að lærdómi hér á landi. Eftir hann liggja ýmis skrif, m.a. fjölmargar prédikanir, en lengi var álitið að Jón Vídalín einn væri honum fremri í þeirri bókmenntagrein.

Séra Páll sinnti nokkuð náttúrufræði auk þess sem hann var mikilvirkur útgerðarmaður og lagtækur skipasmiður. Hann lét m.a. smíða fiskiskútu, svipaða duggum þeim sem Hollendingar sóttu sjóinn á við Íslandsstrendur og sigldi henni sjálfur á dýpri mið en menn höfðu áður sótt. Hann mældi hnattstöðu Bjargtanga og eftir hann liggja mörg ritverk, einkum ræður og þýðingar.

Töluvert hefur verið ritað um guðfræðirit sr. Páls, en einna kunnastur er hann þó fyrir hlut sinn í galdraofsóknum 17. aldar. Veturinn 1669 veiktist Helga kona hans af óþekktum sjúkdómi og kenndu þau hjónin fjölkynngi nágranna sinna um. Í fyrstu voru tveir brenndir fyrir og fékk Helga nokkurn bata eftir bálfarirnar og átti það að sanna að veikindin stöfuðu af göldrum. Fljótlega tóku veikindin sig upp aftur, bæði hjá húsmóðurinni og börnum hennar og áður en yfir lauk höfðu fimm menn og ein kona verið brennd fyrir ákærur þeirra. Munaði þar ekki minnst um dyggan stuðning Eggerts sýslumanns bróður sr. Páls.

Einn til viðbótar var brenndur litlu síðar vegna veikinda dóttur þeirra hjóna. Sr. Páll hefur skrifað gegn galdri og sótti þá mikið til hinnar illræmdu bókar Nornahamarsins. Sjá nánar Selárdalsmál.

Mailing list