Þorleifur Kortsson - lögmaður

Fáum mönnum hefur verið úthúðað jafn rækilega í sagnfræðiumfjöllun um brennuöldina og Þorleifi Kortssyni. Því hefur verið haldið fram að Þorleifur eigi sök á fleiri brennum en aðrir valdsmenn, hann hafi kynt undir móðursýki galdraofsóknanna og jafnvel að honum hafi ekki gengið annað til en að komast yfir eignir fórnarlambanna. Og þó er þessa neikvæðu mynd af manninum ekki að finna í ritum samtímamanna hans.

Þorleifur Kortsson mun fæddur um 1620. Í móðurætt var hann af valdsmannaættum en langafi Þorleifs í föðurætt er talinn hafa verið þýskur kaupmaður frá Hamborg, Kurt eða Kort Lýðsson eða Lydersen, og faðir hans hafði umboð klausturjarðar svo ekki hefur hann verið álitinn lágstéttarmaður. Þorleifur sigldi ungur og ólst upp hjá föðurfrændum sínum í Hamborg og lærði þar klæðskeraiðn.

Image
Rithönd Þorleifs Kortssonar
Vafalítið hefur Þorleifur kynnst galdramálum í Hamborgardvöl sinni þótt staðurinn sé ekki einn af þeim þar sem fárið var hvað ákafast. Galdraofsóknum þar er talið lokið 1642 þegar Cillie Hempel var brennd, en frá 1581 höfðu 10 konur og 1 eða 4 karlar verið brennd í viðbót við þær 30-40 konur sem brenndar voru á milli 1444 og 1581.

Þorleifur kom heim 1647 og var lögsagnari (þ.e. umboðsmaður sýslumanns) þar til Ari í Ögri lét honum í té hálfa Strandasýslu og umboð helmings konungsjarða á þeim slóðum. Um sama leyti giftist Þorleifur bróðurdóttir Ara, en Svalbarðsætt réði þá öllum embættum á Vestfjörðum. Þorleifur settist að á Bæ í Hrútafirði og tók við allri sýslunni þegar Ari dó árið 1652. Um sama leyti kom upp hið undarlega Trékyllisvíkurfár sem endaði með því að Þorleifur kvað upp þrjá líflátsdóma eftir að hafa leitað álits alþingis á hvernig með málið ætti að fara. Þorleifur var einnig annar sýslumannanna sem kváðu upp brennudóm yfir Kirkjubólsfeðgum, en ekki kom Þorleifur að því máli fyrr en eftir ítrekaða beiðni séra Jóns þumlungs. Og við höfum eingöngu orð prests fyrir því að Þorleifur hafi nefnt pyntingar við yfirheyrslur í þessu máli. Þegar Magnús Björnsson sagði af sér lögmannsembætti 1662 hlaut Þorleifur kosningu og hélt embættinu til 1679.

Ekki er að sjá að Þorleifur hafi átt frumkvæði að neinum galdramálum, en það var í hans verkahring sem lögmanns sunnan og vestan að fjalla um þau annað hvort á alþingi eða þegar sýslumenn vísuðu þeim til hans. Það skal tekið fram að þar sem málin komu flest upp á Vestfjörðum þar sem allir valdsmenn voru náskyldir konu hans, hefur hann ekki verið í öfundsverðri afstöðu gagnvart mönnum eins og þeim bræðrum Eggerti ríka Björnssyni sýslumanni og sr. Páli í Selárdal sem sóttu mál gegn meintum galdramönnum af miklu offorsi.

Umfjöllun Þorleifs um nokkur þekktustu brennumálin er að finna í Dómabók hans sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni og samkvæmt þeim málsmeðferðum sem þar eru bókfestar virðast samtímamenn hans hafa haft réttari mynd af honum en þeir 19. og 20. aldar fræðimenn sem gera hann að blóraböggli fyrir galdrafár aldarinnar. Iðulega vísar Þorleifur málum heim í hérað aftur og krefst frekari rannsóknar ef honum finnast rök ákærenda eða yfirvalds léleg. Dómabókin hefur lítt verið notuð sem heimild um galdramál til þessa.

Mailing list