Tilberamál á Kjalarnesi

Einhvern tíma fyrir 1634 höfðu prestarnir í Brautarholti á Kjalarnesi og í Höfnum samband sín á milli varðandi orðróm sem uppi var um Álfdísi Jónsdóttur á Kjalarnesi og móður hennar Guðrúnu Jónsdóttur í Höfnum. Sögurnar fullyrtu að Álfdís hefði erft tilbera eftir móður sína og brúkaði fyrirbærið. Prestarnir hafa ekki þorað annað en grípa til einhverra ráða og komið sér saman um að neita þeim mæðgum um heilagt sakramenti. Þannig hafa málin staðið í einhvern tíma áður en yfirvöld fóru að fjalla um málið, og til er bréf til prófastsins í Höfnum frá Gísla biskup í Skálholti þar sem hann segist ekki vita betur en rétt sé að setja menn út af sakramentinu „fyrir alrómað rykti,“ en hins vegar megi menn ekki „vera svo dauflegrar samvisku að rannsaka það ekki ... því djöfullinn gerir ekki að gamni sínu við oss.“

Árið 1635 fara prestarnir þess svo á leit á prestastefnu að fá leiðbeiningar um hvað þeir eigi að gera varðandi mæðgurnar því það að fá ekki að ganga til altaris árum saman var náttúrulega stórvarasamt. Prestum er kynntur eiður um að rykti sé almennt, en einnig kemur fram að sýslumaður telur að þarna sé um „líflaust rykti“ að ræða, þ.e. að engar sannanir séu fyrir hendi. Grunur var ekki nóg svo mæðgunum var aftur hleypt að grátunum, en hvort málinu var þar með lokið vitum við ekki.

Þetta er eina tilberamálið sem upp kom á 17. öld en ásakanir um slíkt virðast hafa komið fram bæði fyrir og eftir brennuöldina.

Mailing list