Mál feðganna á Kirkjubóli við Skutulsfjörð

Brenna feðganna Jóns Jónssonar eldri og Jóns Jónssonar yngri sem búsettir voru á Kirkjubóli í Skutulsfirði er sennilega eitt þekktasta galdramál 17. aldar. Síra Jón Magnússon sem kallaður var þumlungur, prestur á Eyri, sótti þá til saka fyrir að vera valdir að veikindum sínum. Eftir nokkurra mánaða varðhald játuðu feðgarnir á sig ýmiskonar kukl á þingi á Eyri (núverandi Ísafjarðarkaupstað), en þangað voru þeir fluttir í járnum. Eftir töluvert þóf þar sem sr. Jóni þótti Magnús Magnússon sýslumaður og annálaritari á Eyri í Seyðisfirði atkvæðalítill og sárbændi Þorleif Kortsson um að koma vestur og ganga í málið voru þeir feðgar dæmdir til dauða eftir að hafa játað á sig kukl og brenndir í apríl 1656, en prestur fékk skaðabætur af fé þeirra og eignum.

Síra Jón var þó ekki sáttur við málalyktir. Sneri hann sér því að Þuríði, dóttur Jóns eldri, ákærði hana fyrir galdur og lýsti því yfir að hún væri völd að sjúkdómum sem áfram hrjáðu hann eftir brennu feðganna. En nú var eins og öðrum valdsmönnum fyndist nóg að gert. Báðir sýslumennirnir og Gísli Jónsson í Reykjarfirði sem gegndi lögsagnarastörfum fyrir Þorleif í Ísafjarðarsýslu, virðast hafa tekið fremur dræmt undir kröfur Jóns. Þó var málið tekið fyrir bæði í héraði og á Alþingi 1658, þar sem Þuríði var gert að hreinsa sig með eiði sem hún kom fram.

Mál Þuríðar Jónsdóttur er býsna sérstakt. Síra Jón bar hana galdri hvað eftir annað, en Jón Jónsson, prófastur í Holti Önundarfirði og kona hans Halldóra Jónsdóttur skutu yfir hana skjólshúsi og aðstoðuðu með ýmsum hætti. Þuríður náði að hreinsa sig af ákærum síra Jóns, en presturinn hélt ákærum sínum engu að síður fram á Alþingi árið eftir. Þá kærði Þuríður klerkinn fyrir ofsóknir og rangar sakargiftir.

Presturinn brást við með því að skrifa heilmikið varnar- og réttlætingarit, Píslarsögu síra Jóns Magnússonar, þar sem hann lýsir fjálglega þeim göldrum sem hann og heimilisfólkið höfðu orðið að þola. Frægð Jóns þumlungs og Kirkjubólsmálsins byggist nær eingöngu á þessari einstöku samtímaheimild sem Píslarsagan er. Þó sýnir sagan að baki bókinni að hún er vandmeðfarin. Óljóst hlýtur að teljast hvað raunverulega lá að baki málatilbúnaði síra Jóns - trúði hann staðfastlega að feðgarnir og síðan Þuríður væru völd að veikindum sínum eða hafði hann meiri áhuga á eigin fjárkröfum?

Um orsakir galdrafársins á Eyri hefur einnig ýmislegt verið ritað út frá nútíma sjónarmiðum. Þá hafa menn gefið sér að vissulega hafi verið um veikindi að ræða og viljað finna á þeim aðrar skýringar en galdur. Meðal skýringa á upplifunum Jóns og heimilisfólks hans er næringarskortur, illkynjuð flensa og neysla á skemmdu korni, en við ákveðnar aðstæður getur myndast í því sveppagróður sem veldur ofskynjunum. Svona lýsir Jón sjálfur kvölum sínum:

„Stundum var eg svo sem undir ofurþungu fargi kraminn og klesstur, svo sem þá maðkur er marinn eða ostur fergður, svo að megn og máttur var allur í burt tekinn, og í því fargi var þess á milli svo að finna sem líkaminn væri pikkaður með brennandi eða glóandi smánálum, svo þétt um holdið svo sem til að jafna, er menn finna til náladofa. Stundum fannst mér eg lagður upp í þá síðuna, sem eg lá á, svo sem með flein, sem mér fannst ganga í gegnum lífið á milli rifjanna, svo eg hugði eg mundi dauða af bíða. Stundum lá eg í báli, svo eg tók andköst, svo mér fannst ekki betur en logi og báleldur léki um allan líkamann og sérdeilis brjóstið, og blossinn fannst mér fram af fingrunum líða, svo eg vissi ekki annað en eg mundi til ösku uppbrenna, svo mig undraði að holdið var óskaddað. Sundum lá eg í nístingskulda. ... Stundum var holdið utanum beinin svo til að finna svo sem krúandi maðkaveita, svo sem vellandi og spriklandi væri með hræðilegum ofbjóð. En samt var þetta svo sem hégómi að reikna hjá þeim innri kvölum ..."

Í dómsorðum um þá feðga Jón Jónsson og Jón Jónsson er þetta að finna: „

Því fyrir þessar greinir og aðrar fleiri, sem vorum dómi mega til styrktar vera, að heilags anda náð til kallaðri, oss í dómsætum sitjandi, þá dæmum vér fyrnefndir dómsmenn með fullu dómsatkvæði í nafni vors herra Jesú Kristí, hverjum gefið er alt vald á himni og jörðu, og aptur mun koma að dæma lifandi menn og dauða, þessa þrátt nefnda menn, Jón eldra og Jón ýngra Jónssyni feðga, báða lífið forbrotið hafa og sanna dauðamenn, og sá dauði skuli svo á þá lagður vera, að í loganda báli brenndir verði til ösku eptir því, sem hér í landi við geingist hefur og öðrum framandi, þar þeir eru sannprófaðir óbótamenn fyrir alla ofan skrifaða óhæfu."

Mailing list