Grímur Jónsson - brenndur 1654

Áður en Þórði Guðbrandssyni var varpað á eldinn lét hann svo um mælt að mestur galdramanna í Trékyllisvík væri Grímur Jónsson. Var rannsókn því hafin á atferli hans sem leiddi í ljós að á honum var hið mesta galdraorð. Við yfirheyrslur viðurkenndi hann að hafa notað rúnaspjald, fengið frá Þórði, til varnar dýrbiti og að hafa banað á einni með því að kasta í hana rúnakefli.

Grímur var settur í járn og glúpnaði hann svo við það að hann hét því að leggja af allt kukl ef þeir slepptu honum úr járnunum. Bænum hans var þó ekki sinnt og á næstu tveimur dögum játaði Grímur á sig alls kyns galdur svo sem að hafa viðhaft galdravers og særingar til að gera mönnum baga og skaða og komið manni af jörðinni Reykjarfirði sem hann fýsti í sjálfan.

Grímur var dæmdur á bál og brenndur í Kistu í Trékyllisvík, Strandasýslu.
Sjá einnig: Undrin í Trékyllisvík.

Mailing list