Þórarinn Halldórsson - brenndur 1667

Þórarinn á Birnustöðum hafði stundað lækningar bæði á fólki og skepnum í Ögursveit og m.a. notað eikarspjald við tilraun til að lækna stúlku á Laugabóli. Stúlkan dó og spjaldið komst í hendur Sigurðar Jónssonar sóknarprests í Ögri. Spjaldið var skoðað á vorþingi 1665 án þess að menn kæmust að niðurstöðu.

Litlu síðar dó prestur og þessi tvö dauðsföll voru kennd Þórarni. Hann flúði þá sveitina með konu sinni og hafði þá rakað hár sitt og skegg en var engu að síður tekinn í Staðarsveit á Snæfellsnesi og sendur vestur. Hann strauk aftur og komst nú alla leið í Rangárvallasýslu þar sem Vísi-Gísli handsamaði hann og sendi vestur.

Við réttarhöldin kom æði margt neikvætt fram um Þórarinn. Málið var tekið fyrir á tveim þingum vorið 1667 þar sem enginn fékkst til að sverja með Þórarni og var hann dæmdur sekur en Öxarárþingi eftirlátið að ákveða refsinguna. Þar var hann dæmdur til dauða fyrir „rúna risting og brúkun til óleyfilegra lækninga" og eftir dómsuppkvaðninguna viðurkenndi Þórarinn sig dauða verðugan.

Þórarinn Halldórsson var fyrsti maðurinn sem brenndur var á Þingvöllum fyrir galdra.

Mailing list