Jón Leifsson - brenndur 1669

Um áramótin 1668-9 veiktist „sú guðhrædda" maddama í Selárdal í Arnarfirði, Helga Halldórsdóttir, af undarlegum sjúkdómi. Varð hún fyrir „ærið mikilli árás og ofsókn af illum anda" og lá veik fram á sumar.

Eftir að maddama Helga lagðist í rúmið gekk yfir Selárdal skæður draugagangur, svo þau hjónin og allt þeirra fólk flúði staðinn um tíma. Helga þóttist nú sjá hver orsökin fyrir ókyrrleikanum væri.

Jón nokkur Leifsson hafði sóst eftir að kvænast einni af þjónustustúlkum hennar, en Helga hafði lagst eindregið gegn því. Sá drengur var nú tekinn og yfirheyrður og virðist hafa viðurkennt eitthvað kukl, a.m.k. að hafa reynt að kynnast því. Um skeið var tvísýnt hvernig tekið yrði á máli Jóns og bar séra Páll mikinn kvíðboga fyrir því að máli hans yrði vísað til Öxarárþings.

Eggert sýslumaður gekk þá skörulega fram í málinu og ákvað að láta brenna Jón vestra, rétt áður en hann reið til þings. Fékk hann síðan brennudóm sinn staðfestan á Þingvöllum eftir á.

Jón var brenndur í Barðastrandasýslu að gengnum dómi árið 1669.
Sjá einnig: Selárdalsmál.

Mailing list