Páll Oddsson - brenndur 1674

Páll Oddsson bóndi í Ánastaðakoti á Vatnsnesi hafði búið þar nálega tvo áratugi og aldrei verið orðaður við forneskju þegar séra Þorvarður Ólafsson á Breiðabólstað kenndi honum um veikindi konu sinnar, Valgerðar Ísleifsdóttur. Var ákæran sprottin af rúnaspjöldum sem höfðu fundist.

Þegar rannsaka átti málið kom Páll ekki til þings og fannst hvorki heima hjá sér né annars staðar. Þótti það benda til að hann vissi upp á sig sökina.

Málinu var skotið til Þorleifs Kortssonar og var Páll í haldi hjá Guðbrandi sýslumanni Arngrímssyni í Ási í Vatnsdal. Síðari tíma saga segir að Páll hafi átt vingott við eiginkonu sýslumanns og Guðbrandur þess vegna sótt málið fastar.

Þegar á leið urðu fleiri til að saka hann um galdur og kenna honum veikindi. Málinu var vísað til Öxarárþings og Páli gert að frelsa sig með tylftareiði. Þegar til eiðs kom greindi eiðvætti á og sumir báðust undan eiði. Samt tókst að ná öllum saman nema einum, fjögur vildu sverja hann saklausan en sjö ekki. Páll meðgekk aldrei að vera valdur að veikindum konunnar og sagði nafngreindan mann hafa rist eða látið rista spjöldin sem málið reis út af. Sá maður sór fyrir sakargiftir Páls svo að hann var dæmdur sekur þrátt fyrir vitnisburð margra góðra manna. Sagt var að hann hefði stungið höfðinu fram þegar hann var kominn á bálið og sagt: „Sjáið þar sakleysi mitt."

Páll var brenndur á Þingvöllum.

Mailing list