Jöklavetur.

Konungstilskipun um galdra frá 1617 leidd í lög um leið og dæmt var á alþingi um galdrameðferð Gísla Snæbjarnarsonar. Í tilskipuninni segir m.a. að sá sem eftir þennan dag verði fundinn sekur um galdur skuli taka út sína refsingu í eldi. Upphafsmaður máls Gísla var Ólafur Pétursson umboðsmaður hirðstjóra. Sakargiftir voru blöð, bréf, stafróf, figúrur og Caracterus sem Gísli hafði skrifað. Hann viðurkenndi að hafa skrifað eitt bréf til lækninga dóttur Bergþórs á Kúludalsá. Gísli var dæmdur til húðláts, enda ekki um regluleg galdrabréf að ræða og ekki notað í vondum tilgangi.

Séra Þorsteinn Jónsson á Ríp í Skagafirði kærður til biskups af sóknarbörnum fyrir galdur. Meðal annars var borið á hann að hafa sagt að guðs son væri rentumeistari djöfulsins. Vildu menn sverja fyrir að hann væri heldur sekur um galdrameðferð en saklaus. Biskupinn kallaði hann á prestafund svo hann gæti staðið fyrir máli sínu, sem þegar á reyndi gerði lítið gagn. Þá virðist sem séra Þorsteinn hafi boðist til að segja af sér embættinu, en endanleg ályktun í málinu skyldi koma næsta vor og það virðist hafa verið samþykkt.

Vondur draugandi sást um Eyjafjörð allan mörgum til skelfingar. Talinn vera uppvakningur. Gjörði stórar skráveifur og sást fyrst í brullaupi einu á Grýtubakka. Draugurinn hafði selshaus að ofan, en hrossafætur að neðan, en með mannlegar hendur og brjóst.

Mailing list