1650


Ný dómkirkja reist í Skálholti, m.a. úr reka af Ströndum.

Meðal sakamanna sem líflátnir voru á þingi var Jón nokkur Jónsson, sem ýmist var kallaður Ríðumaður eða Sýjuson, og stjúpdóttir hans sem hafði kennt honum tvö börn. Konunni var drekkt að venju en Jón höggvinn. Var hann harðsvíraður mjög og fékkst aldrei af honum meðkenning né iðrun hversu sem til var leitað. Þegar böðullinn hjó hann tók öxin ekki á háls honum og þurfti um síðir þrjátíu högg til að merja höfuðið af. Á líkinu fannst síðan svartur rúnastafur á eikarspjaldi og hausskel af manni með hári á. Af þessu var hann talinn fjölkunnugur og kroppurinn því brenndur. Samkvæmt munnmælum mun Jón hafa kennt Sveini skotta galdur.

Fjórtán skólapiltar í Skálholti voru flengdir fyrir galdur og þeim vísað úr skóla. Enginn þeirra var ákærður og var það talið að þakka Brynjólfi Sveinssyni biskupi.

Mailing list