1656


Þann 12. september var ógnarstormur með hreggviðri á vestan og gerði víða skaða. Brotnaði Höfðaskip í spón þar á legunni, varð sumu góssi bjargað og mönnum, utan 4 sem drukknuðu. Var mælt að Strandamenn mundu hafa sent Eiríki kaupmanni þetta óhapp. Sáu áreiðanlegir menn og sannorðir glóandi knött yfir skipinu áður en það sleit upp.

Kirkjubólsmálið, feðgarnir Jón og Jón brenndir á báli fyrir að valda séra Jóni Magnússyni þumlungi djöfullegum ásóknum og veikindum. Sýslumaður var Þorleifur Kortsson. Ekki linnti hörmungum Jóns þumlungs við dauða þeirra feðga og sneri hann sér þá að Þuríði dóttur Jóns eldra. Tveir aðrir voru strýktir fyrir galdragerninga á séra Jón.

Jón Ólafsson dæmdur á Eyri við Skutulsfjörð fyrir stafi. Sýslumenn voru Þorleifur Kortsson og Magnús Magnússon á Eyri.

Séra Halldór Jónsson í Mýrasýslu ákærir Gísla Sigurðsson fyrir að drepa færleik sinn. Málið var sent heim í hérað aftur til nánari rannsóknar, „sérdeilis um konunnar Guðrúnar Einarsdóttur kynning." Prestur skyldi hýðast ef Gísli ynni eið. Brynjólfur biskup hafði afskipti af málinu og það var fellt niður.

Galdra-Manga eftirlýst, hún var borin sökum af þremur mönnum í Árneshreppi.

Mailing list