1657


Bær í Grunnavíkursókn á Ströndum brann um nótt með 9 manns inni, einnig brann spánnýr sexæringur sem stóð hjá bænum. Hét bærinn í Reykjarfirði.

Bólan gekk í Strandasýslu og önduðust nokkrir menn, líklega fleiri en 30 í Trékyllisvík.

Á Ströndum gaf maður nokkur sig djöflinum með því móti að hann veðjaði við sambúanda sinn að næsta morgun skyldu vera komnir 20 selir í net hans. Hann lagði svo nótina um kvöldið en um nóttina kom sá vondi til hans og gerði árásir miklar. Maðurinn hrökklaðist úr rúminu nær klæðlaus. Forvitnaðist þá hinn maðurinn um hann og fann hann dauðann og illa verkaðan hjá festarsteini nótarinnar en 20 selir voru fastir í nótinni.

Magnús Jónsson í Miðhlíð, sýslumaður Barðastrandarsýslu, var borinn galdraáburði þetta ár, en hann þótti sýna linkind í galdramálum. Magnús sór af sér galdraorðið en í framhaldi af því bar hann fram ákæru á hendur Runólfi Þorvaldssyni fyrir eikar- eða surtarbrandsspjald. Runólfur var sektaður.

Upp var lesinn á Vaðlaþingi á Barðaströnd undanfærslueiður undan galdrarykti.

Eggert sýslumaður í Hvammi á Barðaströnd, bróðir séra Páls í Selárdal lét lesa tvo dóma um galdrarykti Halldórs Bjarnasonar í Bjarneyjum á þingi. Lögrétta ákvað að hegningin, 20 vandarhögg, væri hæfileg fyrir ryktið því ekki var vitað að hann hefði neinum gert mein:

„Item hans eiðboð og meðkenning að hafa haft undir höndum Salomons innsigli. Sekt til 10 marka eða 20 vandarhögga því illt var ryktið en engum skaði gjörður.“

Vitus Jónsson kærir Guðrúnu Sigurðardóttur fyrir veikindi barna sinna. Upphaflega var dæmt í Aðalvík en málið tekið fyrir á alþingi 1. júlí. Niðurstaðan var enginn eiður því aðeins var um grunsemd að ræða:

„þar ei koma frekari líkindi eða nokkur áburður framar en í dóminn er innfærð. En þau reiðiyrði sem í dóminn eru innfærð virðist að engu takandi eftir því hún tók þau aftur að sama vetfangi.“

Mailing list