1661


Magnús sýslumaður á Eyri bar fram laust rúnablað sem tveir menn, Snæbjörn Torfason og Þorvaldur Sveinsson, höfðu haft undir höndum. Ritarinn var dáinn. „Var það lækningablað við undirmigu, að spekja fé, ei sé stolið, með stöfum.“ Jón Þorsteinsson hafði sýnt þeim blaðið „í engri launung“ en Bjarni Bjarnason sem afhenti Jóni blaðið „sé meira forþenktur“. Bjarni fékk því áminningu eða straff og sýslumanni var falið að rannsaka málið frekar.

Um sumarið á alþingi varð bráðkvaddur í lögréttu Eiríkur Sigvaldason, lögréttumaður austan að. Var sagt hann hefði hart talað móti einni galdrakonu.

Sex hafa svarið Galdra-Möngu eiðinn ósæran en fimm hafa ekki enn svarið. Dómurinn látinn standa.

Ragnheiður Brynjólfsdóttir biskups í Skálholti sver í viðurvist fjölda presta í Árnessýslu fyrir öll mök við karlmenn. Orðrómur hafði gengið um samdrátt hennar og Daða Halldórssonar ungs manns á staðnum. Ragnheiður fór til Bræðratungu til Helgu Magnúsdóttur eftir að hún sór eiðinn.

Jón Ólafsson Indíafari færir reisubók sína í letur.

Hæstiréttur stofnaður í Kaupmannahöfn.

Mailing list