1667


Um sumarið var brenndur á alþingi galdramaður af Vestfjörðum, Þórarinn Halldórsson. Hann viðurkenndi að hafa með lækningagöldrum sínum orðið valdur að dauða stúlku sem hét Hallfríður og séra Sigurðar Jónssonar, sóknarprests í Ögurþinghá. Þórarinn var brenndur fyrstur manna á Þingvöllum en fyrr um veturinn hafði hann sloppið úr járnum frá sýslumanninum Magnúsi Magnússyni yfir Ísafjarðarsýslu. Hann náðist þó og var sendur heim til sín.

Mál mikið var fyrir norðan í Vaðlaþingi um sumarið, voru nefndir til bændur tveir sem almennt voru taldir mjög fjölkunnugir. Annar hét Jón Guðmundsson sem lengi bjó á Hellu á Árskógsströnd, hann var álitinn illgjarn og áleitinn við menn. Hinn var Jón Illhugason kallaður hinn lærði, sá bjó á Skógum á Þelamörk og var atgjörfismaður. Jónarnir tveir höfðu lengi ást illt við og þegar Jón á Hellu dó á hlaðinu heima hjá sér og spýtti áður þremur blóðgusum var það eignað galdri hins.

Í Snæfellssýslu var búðarmannssonur einn tekinn fyrir að hafa undir höndum rúnakver með slæmum stöfum. Hann var dæmdur til húðláts.

Fimm vetra gamalt barn féll í sjávarsíki á Fjarðarhorni í Strandasýslu og fannst samdægurs.

Mailing list