Sjávarútvegsráðuneyti styrkir baskarannsóknir
Tuesday, 03 April 2007 18:02

Sjávarútvegsráðuneyti hefur ákveðið að styrkja fornleifarannsóknirnar á
Strákatanga í Hveravík um eitt hundrað þúsund krónur en það eru Strandagaldur og
fornleifadeild Náttúrustofa Vestfjarða sem standa sameiginlega að
fornleifarannsókninni. Á þessu ári er stefnt að því að grafa upp þær tóftir sem
er að finna í námunda við bræðsluna sem komin er í ljós en gerðir hafa verið
könnunarskurðir sem lofa góðu. Gert er ráð fyrir að vinna á vettvangi á komandi
sumri taki 4 - 5 vikur og þar verði tveir fornleifafræðinemar við störf ásamt
Ragnari Edvardssyni fornleifafræðingi og Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi.
Endanleg ákvörðun um það verður þó ekki tekin fyrr en fjármögnun liggur
fyrir.
Í kostnaðaráætlun verkefnisins er gert ráð fyrir að kostnaður næstu
fjögur árin við rannsóknirnar verði í kringum 5 milljónir á ári. Ennþá er langt
í land að takist að fjármagna verkefnið en beðið er eftir ákvörðun
fornleifasjóðs um fjármagn til rannsóknanna. Sú ákvörðun ætti að liggja fyrir í
þessum mánuði. Fornleifasjóður hefur styrkt frumrannsóknir vegna verkefnisins
s.l. 2 ár um samtals 1.200 þúsund. Einnig hefur Kaldranananeshreppur lagt
verkefninu lið með 100 þúsund króna framlagi og Landsvirkjun og Landsnet hafa
lagt til 250 þúsund krónur hvort félag.

Rannsóknirnar hófust haustið 2005 og var
áframhaldið s.l. haust. Í ljós hefur m.a. komið bræðsluofn þar sem spikið af
hvölunum hefur verið brætt og aðrir smáhlutir, postulínsbrot og reykpípuhausar
og fleira. Ragnar Edvardsson frá fornleifadeild Náttúrustofu Vestfjarða og
Magnús Rafnsson frá Strandagaldri hafa borið hitann og þungan af rannsóknunum. Í
tveimur skýrslum frá þeim er árangri rannsóknanna lýst og þær er hægt að nálgast
á slóðinni
www.galdrasyning.is/baskar.
Markmið verkefnisins er að halda
áfram rannsóknum á minjum hvalveiðimanna á tímabilinu frá 1500 til 1700.
Meginmarkmiðið er að skapa grundvöll að frekari rannsóknum á minjum
hvalveiðimanna frá þessum tíma og um leið öðlast betri skilning á eðli búsetu
hvalveiðimanna á tímabilinu og hvernig samskiptum þeirra við Íslendinga var
háttað. Verkefnið mun reyna að setja fornleifafræði á minjum erlendra
hvalveiðimanna í víðara samhengi svipaðra rannsókna á Norður Atlantshafssvæðinu.
Aðaláherslan er á efnislegum minjum eftir hvalveiðimenn á Íslandi og hvaða áhrif
vera þeirra hafði á íslenskt samfélag.
Fornleifafræðilega séð hafa litlar
sem engar rannsóknir farið fram á meintum minjum erlendra hvalveiðimanna við
Ísland og þar af leiðandi er lítið annað vitað um samskipti Íslendinga við
útlendinga en það sem kemur fram í rituðum heimildum. Þó hafa nokkrar athuganir
verið gerðar á minjum og eru þær flestar í formi fornleifakönnunar og benda þær
til þess að talsvert sé um minjar eftir erlenda hvalveiðimenn í
Strandasýslu.

Meintar minjar um hvalveiðimenn Baska eru allar við sjó og
sjaldnast í meira en 5 metra fjarlægð frá sjávarmáli. Margar minjanna eru það
nálægt sjávarmáli að þeim stafar hætta af ágangi sjávar. Rústirnar á Strákatanga
eru að u.þ.b. 4 metra frá sjávarmáli og stafar þeim nokkur hætta vegna ágangs
náttúrunnar. Heimildir benda sterklega til talsverðra samskipta milli erlendra
hvalveiðimann og Íslendinga. Samkvæmt heimildum virðast þessi samskipti hafa
verið þó nokkrum erfiðleikum bundin og ofbeldisfull á köflum. Samt sem áður er
ekki víst að alltaf hafi verið svo og getur fornleifafræðin hjálpað til að
öðlast dýpri skilning á þessum samskiptum og hvernig eðli búsetu baskneskra
hvalveiðmanna var háttað. Með því getur rannsóknin lagt til nýjar upplýsingar um
kafla í Íslandsögunni sem ekki er vitað mikið um.
Fyrir fornleifafræðina
er gildi verkefnisins ekki bara mikilvægt í íslensku samhengi heldur líka í
alþjóðlegu. Verkefnið mun leggja til ómetanlegar upplýsingar um hvalveiðar á
Norður Atlantshafi og verið gríðarleg viðbót við þær upplýsingar sem þegar hafa
safnast við rannsóknir á Svalbarða og Nýfundnalandi, og fleiri stöðum á Norður
Atlantshafssvæðinu.
Í framhaldi af rannsóknunum sem vonast er til að geti
farið fram í sumar verði síðan litið á aðra staði á Ströndum þar sem sagnir eru
um hvalaveiðimenn, s.s. á Eyjum á Bölum og í Kjörvogi og Naustvík í
Reykjarfirði.
Íbúar á Ströndum og ekki síður ferðaþjónustuaðilar líta á
þessar rannsóknir sem gríðarlegt tækifæri til að bæta við rós í hnappagatið í
menningartengdri ferðaþjónustu á svæðinu og stefnt er að því í samstarfi við
ýmsa aðila, s.s. Kaldrananeshrepp, að byggja einskonar endurgerð af basknesku
hvalbræðslunni í Hveravík á Drangsnesi og að gera rannsóknunum góð skil í
Hveravík.
Náttúruskoðunarverkefnið WOW er einnig hugmynd sem byrjað er að vinna að
og tengist beint rannsóknunum í Hveravík. Það verkefni gengur út á að fræða
ferðamenn og allt áhugasamt fólk um náttúruskoðun um fjölbreytt dýra- og fuglalíf við
Steingrímsfjörð. Einnig er stefnt að að kynna úrlausnir mjög vel með hverskyns
miðlun, s.s. útgáfu á rannsóknunum og jafnvel heimildarmyndar um hvalveiðar við
Ísland og N-Atlantshaf fyrr á öldum.
Verkefnið er þegar komið í gott samband við fræðimenn sem unnið hafa að
samskonar rannsóknum í Red Bay á Nýfundnalandi og við rannsóknarstofnunina
Albaola í Baskalandi.
www.albaola.com/.
Sú stofnun hefur
unnið að nákvæmum endursmíðun á samskonar skipum sem stunduðu hvalveiðar við
Ísland fyrr á öldum og vinna nú að smíði á bátum sem þeir ætla sér að sigla um
slóðir Baskneska hvalveiðimann á Íslandi sumarið 2009. Strandagaldur, ásamt
fleiri aðilum á Vestfjörðum mun í samvinnu við basknesku stofnunina vinna að
sérstökum baskneskum dögum þegar sá atburður á sér stað og styrkja samband
þessara tveggja hvalveiðiþjóða.