Þjóðhátíðarsjóður styrkir útgáfu þriggja galdrabóka

Magnús RafnssonStrandagaldur hlaut 500 þús. króna styrk frá Þjóðhátíðarsjóði til útgáfu á þremur galdrabókum. Úthlutunarathöfn fór fram í Þjóðmenningarhúsinu í gær. Magnús Rafnsson var viðstaddur athöfnina fyrir hönd Strandagaldurs og veitti framlaginu móttöku en hann lauk viðamikilli rannsókn á galdrabókum á síðasta ári. Bækurnar sem stefnt er að gefa út eru valdar samkvæmt rannsókn Magnúsar og eiga að gefa fyllri mynd af galdraskræðum og galdrastöfum en hingað til hefur verið kostur á. Áætlað er að gefa bækurnar út með myndum af hverri síðu skræðanna og jafnframt fylgi textar með nútíma stafsetningu og með enskri þýðingu. Þetta eru ólíkar galdraskræður en saman gefa þær góða mynd af því efni sem varðveitt er á handritasöfnum.

Handritið Lbs 2413 8vo er ein efnismesta galdrabókin og á margt sameiginlegt með því sem varðveist hefur frá tíma galdramála en einnig geymir hún ýmislegt tengist þeim brotum af íslenskum galdri sem finna má í miðaldahandritum. Lbs 764 8vo er eina dæmið um galdrabók sem rituð er með leyniletri auk þess sem í henni er að finna dæmi um áhrif frá þeirri dulspeki, sem á rætur sínar í endurreisnartímanum. Báðar þessar bækur eru ritaðar um 1800. Loks er til í þremur uppskriftum frá fyrstu áratugum 20.aldar galdrabók sem mun upprunnin á Ströndum eða Hornströndum og vitað er að var þar undir lok 18. aldar. Eitt af þessum handritum er Lbs. 4375 8vo, annað er á Þjóðminjasafni (Þjms 15555) og þriðja handritið sem kallað hefur verið Rún er í einkaeign.

Lbs 764 4toSaman munu þessar bækur gefa heildstæða mynd af þeim galdrabókum sem gengu manna á milli öldum saman og með útgáfu þeirra fæst fullkomnari og réttari mynd af þessum sérkennilegu alþýðufræðum en áður.

Sumar galdraskræður geyma málrúnir og margar tegundir leturs. Flestar þessar bækur eru síðara tíma verk þótt málrúnir, bandrúnir og letur finnist í gömlum handritum. Þessi skræða til hliðar (Lbs 764 4to) frá því um 1820 er sérstök að því leyti að þótt heiti galdranna séu auðlesinn er allur texti á leyniletri.


Hægt er að skoða lítið brot af galdraskræðum hér á heimasíðu Strandagaldurs með því að smella hér.

Mailing list