Mikla menningararfleifð er að finna á Ströndum

ImageÁ Ströndum er að finna fjölda safna og sýninga þar sem hægt er að kynnast ýmsum hliðum sögu og mannlífs. Á meðfylgandi korti hér að neðan sést hvað Strandamenn hafa lagt mikla alúð við menningararfinn en fjölda staða er hægt að heimsækja til að skemmta sér og fræðast, allt norðan úr Trékyllisvík og suður í Steingrímsfjörð. Það er mikil breyting frá því sem var fyrir um það bil áratug eða svo. Mikil menningarverðmæti hafa verið sköpuð sem Strandamenn ætla sér að nýta í enn frekari mæli í framtíðinni ásamt því að leggja áherslu á náttúruafþreyingu.

Minja- og handverkshúsið Kört í Trékyllisvík var tekið í notkun árið 1997 og varð 10 ára á þessu ári. Þar er að finna ýmsar minjar úr Árneshreppi og hægt að kynnast fjölda persóna sem hafa lagt sitt af mörkum til byggðarinnar. Fjöldi skemmtilegra ljósmynda og muna frá liðnum tíma er til sýnis. 

Kistan í Trékyllisvík er staður sem enginn ætti að láta framhjá sér fara, en þar voru þrír menn brenndir á báli fyrir galdur árið 1654. Þær brennur mörkuðu upphaf galdrafárs 17. aldar á Íslandi. Strandagaldur er með í undirbúningi að setja upp sýningu í Trékyllisvík um atburðinn og fleiri galdramál í vonandi nánustu framtíð. 

Síldarverksmiðjan í Djúpavík geymir mikla atvinnusögu. Þar er að finna sýningu um síldarævintýrið mikla í Djúpavík í risavaxinni verksmiðjunni. Einnig er boðið upp á leiðsögn um verksmiðjuna og rifjuð upp gömul minni um mannlíf og framleiðslu.

Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfiði var opnuð árið 2005. Það er ein sýning Galdrasýningar á Ströndum og er bústaður venjulegs leiguliða á 17. öld. Þetta er eina torfhúsið á landinu sem hægt er skoða og kynnast aðstæðum og lifnaðarkjörum almúgafólks á Íslandi í gegnum aldirnar. 

Hákarlahjallur við Hamarsbæli var reistur árið 2004 en hákarlaveiðar á Ströndum hafa verið stundaðar um aldaraðir. Einnig er að finna annan endurbyggðan hákarlahjall við Asparvík á Bölum. 

Rannsóknir á hvalveiðum erlendra hvalfangara við Íslandsstrendur eru að varpa nýju ljósi á Íslandssöguna. Á Strákatanga við Hvervík í Steingrímsfirði stendur yfir fornleifarannsókn á því sem talið er vera basknesk hvalveiðistöð. Til þessa hefur verið álitið að erlendir hvalfangarar hefðu aldrei numið land en grafinn hefur verið upp bræðsuofn sem hlaðinn er úr múrsteinum. Á svæðinu verður komið upp upplýsingum næsta vor um rannsóknirnar. 

Galdrasafnið á Hólmavík var opnað árið 2000 og fjallar um galdrafár 17. aldar á Íslandi á 17. öld og þjóðtrú sem tengist viðfangsefninu. Þar er einnig að finna stórmerkilega hlautbolla sem fannst í Goðdal í Bjarnarfirði og var notaður í hofum í heiðnum sið.

Sauðfjársetur á Ströndum í Sævangi við Steingrímsfjörð var opnað almenningi árið 2001 og fjallar um sauðfjárbúskap og sauðfjármenningu á Íslandi. Þar er haldnir fjöldinn allur af atburðum yfir sumarið þar sem fólki gefst m.a. tækifæri til að fræðast um störf bænda og búaliðs á Íslandi og reyna sig við þau.

 Image

 

Mailing list