Hugmyndin

Við undirbúning að Galdrasýningu á Ströndum varð aðstandendum fljótt ljóst að fyrir lágu ákaflega litlar upplýsingar um ýmsar hliðar galdramála. Fyrri tíðar fræðimenn höfðu einkum haft hugann við stjórnmálasöguna, mál sem komu fyrir alþingi og þau sem tengdust lærðum og ættstórum sautjándu aldar mönnum. Lítið fór fyrir upplýsingum um lífskjör og viðhorf almennings.

Galdramálin voru skoðuð út frá því sem kom fram í dómsorðum á alþingi og lítið fjallað um þær persónur sem þar koma við sögu aðrar en sýslumenn og klerka sem oftar en ekki dæmdu í málunum eða áttu þátt í að draga kuklarana fyrir rétt. Þessi afstaða er skiljanleg í ljósi þess hve heimildir um sumar aldir Íslandssögunnar eru takmarkaðar. Við vitum afskaplega lítið um kjör alþýðunnar, leiguliðanna sem byggðu megnið af jörðum landsins, en þó má lesa ýmislegt milli línanna þegar þetta fólk á annað borð ber á góma í samtímaheimildum.

Langflestir þeirra sem ákærðir voru fyrir galdra voru af lægstu stéttum landsins og þótt einstaka yfirstéttarmaður væri ákærður er ekki vitað til þess að neinn þeirra hafi verið brenndur eða hýddur eins og algengt var um almúgafólkið.

Galdrasýningin í Kotbýli kuklarans sýnir hvernig þetta fólk bjó, hver hugarheimur þess var og til hvaða ráða það greip í lífsbaráttunni.

Mailing list