Fólkið

Nöfn sakborninga í galdramálum segja okkur afskaplega lítið um fólkið. Stundum fylgir með hvar það hafi búið og af því má sjá að flest hefur þetta fólk verið leiguliðar á kotjörðum eða vinnufólk. Og kjör þeirra hafa ekki verið góð.

Fjölmargar jarðir báru mjög lítinn bústofn og ekki hefur þurft stór áföll til að hungurvofan berði að dyrum. Það er því ekki undarlegt að baráttu um jarðnæði bregði fyrir í galdramálum og búandkarlakukl sé algengt í galdrakverum, jafnvel meingaldrar til að gera nágrannanum erfitt fyrir. Á sumum kotbýlunum var ein kýr, innan við tíu ær og einn hestur og átti bústofninn að sjá fjórum heimilismönnum fyrir lífsnauðsynjum þegar hluti afrakstursins hafði verið greiddur landeiganda.

Á Vestfjörðum öllum þar sem jarðnæði er takmarkað hafa fiskveiðar því verið nauðsyn og aflabrestur verið alvarlegt mál. Við þessar aðstæður verður skiljanlegt hve fljótt fólkinu fækkaði við sjúkdóma og harðæri.

Vinnuaðferðir voru frumstæðar fram eftir öldum og mesta furða hvað fólk afrekaði með líkamann sem aðal verkfærið, t.d. við að bera tað á tún eða flytja mó heim að bæ. Sumt af því sem þurfti að gera var hrein púlvinna eins og að mala taðköggla á tún með kláru. Til aðstoðar við puðið greip fólk til ólöglegra aðferða svo lengi sem það trúði á mátt orða og galdrastafa. Sláttur var auðveldari ef ljárinn beit vel og þá ekki úr vegi að nota stafi og ákall ef grasið féll betur fyrir egg sem djöfullinn leit
velþóknunaraugum.

Mailing list