Vættirnar

Heimsmynd sautjándu aldar var full af sýnilegum og ósýnilegum verum. Guð hafði engla á sínum snærum til verndar og hjálpar mannfólkinu og andstæða hans var Satan. Púkar hans og árar gerðu hvað þeir gátu til að spilla mannkyninu. Rétttrúnaður siðaskiptamanna hélt því stíft að fólki að þessi barátta réði því hvort fólk lenti í eilífum fögnuði eða í helvítiseldi að loknu jarðlífinu og til þess að drottinn hleypti því inn í himnaríki varð það að lifa flekklausu lífi og taka jafnt því vonda og góða án þess að æmta eða skræmta. Allt var fyrirfram ákveðið og ekki í verkahring manna að breyta því sem guð hafði sett niður. Alþýðufólkið reyndi samt að hafa áhrif á andana, fyrst og fremst þá illu, með vernd af ýmsu tagi.

Algengust voru verndarbréf og kristinn galdur sem var arfur frá dulfræði miðalda. Menn báru á sér guðsorð, stefnur gegn vondum öndum og margs konar verndartákn. Samkvæmt heimsmyndinni var alheimurinn allur tengdur og því eðlilegt að steinar og grös hefðu bein áhrif á gjörðir mannanna, ekki síst til lækninga og allt var þetta hluti af einni samtengdri heild sem og stjörnur og önnur fyrirbæri náttúrunnar. Ógnvænleg fyrirbæri eins og loftsýnir, halastjörnur og eldgos þóttu því fyrirboðar ills.

Inn í þetta blandaðist hin gamla vættatrú og angar af fornum átrúnaði. Menn trúðu á stokka og steina, álfar bjuggu í nágrenni við menn og létu stundum sjá sig. Í tjörnum bjuggu nykrar og útburðir og tröllin voru á hverju strái, ýmist lifandi eða orðin að steindröngum.

Sagnir af Ströndum greina frá fjölmörgum tröllum og svo virðist sem þau hafi stöðugt verið að flytja sig norðar eftir því sem kirkjubyggingum fjölgaði.

Frægust eru vafalaust tröllin þrjú sem reyndu að grafa Vestfirði frá meginlandinu. Á Drangsnesi stendur enn Kerlingin sem gróf Kollafjörð og hjúin sem á móti henni hömuðust við að búa til Breiðafjarðareyjar komust ekki lengra en að Kollafjarðarnesi áður en sólin kom upp.

Tröllakirkja heitir á Holtavörðuheiði, Skessuhellar í Hrútafirði og Þömb hét skessa sem Þambárvellir í Bitrufirði eru kenndir við.

Miklar sögur fara af Kleppu sem fyrst bjó í Staðardal í Steingrímsfirði en flúði undan kirkjuklukkum norður í Trékyllisvík til Finnboga ramma þar sem ævi hennar endaði. Önnur skessa var í Selárdal í Steingrímsfirði, Þjóðbrók að nafni. Í Kolbeinsvík reyndi skessa að eyða bænum meðan Guðmundur góði gisti þar og í Trékyllisvík má enn sjá hjónakorn sem urðu að steinum á milli Árness og Mela þar í sveit. Mörg önnur Strandatröll er hægt að telja upp.

Á landnámsöld hafði Grímur nokkur Ingjaldsson vetursetu í Grímsey á Steingrímsfirði og stundaði sjóróðra. Einhverju sinni hafði hann Þóri son sinn kornungan með sér, vafinn í selbelg. Í þeim róðri dró hann marbendil og vildi frétta af honum hvar hann myndi nema land. Marbendill svaraði:

Ekki þarf ek at spá yðr, en sveinninn, er liggur í selbelginum,
hann skal þar byggja ok land nema, er Skálm, merr yður leggsk
undir klyfjum.

Síðar um veturinn fórst Grímur í róðri. Um vorið hélt kona Gríms af stað með Þóri og merina Skálm og fóru í Skálmarnes við Breiðafjörð, en það var ekki fyrr en ári síðar sem merin lagðist loks niður við Rauðamel á Snæfellsnesi. Þar nam Sel-Þórir land og varð mikill höfðingi.

Í sögum af Guðmundi biskup góða segir af Selkollu, einhverri verstu óvætt í fornbókmenntum okkar, sem varð til við Selkollustein á Bjarnarfjarðarhálsi og herjaði á búendur í nágrenninu. Guðmundi tókst loks að ráða niðurlögum hennar og Selkollu hefur ekki orðið vart síðan.

Fleiri vættir hafa alla tíð verið þekktar hér í nágrenninu og sagt er að stór hluti þeirra hafi hafst við í Goðdal upp af Bjarnarfirði fram eftir öllum öldum. Guðmundur góði reyndi að bægja þeim úr dalnum en fljótlega sótti í sama horfið. Í Goðdal var hof og svæðið í kringum það er einhver rammasti álagablettur sem sögur fara af. Annar blettur er þar sem ekki má hreyfa við en það er haugur Goða, þess sem dalinn byggði. Í dalnum voru stunduð launblót eftir að kristni var lögtekin og enn þykir hvíla yfir dalnum einhver dulýðgi enda er sagt að eftir að gripum hofsins var fleygt í annan Goðafossa í Bjarnarfirði hafi vaxið dreki í Goðdalsá.

Mailing list