Stefnur, bænir og særingar

Orðið hefur alltaf þótt hafa töframátt á Íslandi og fátt hræddust menn meira en formælingar ákvæðaskálda. Orðkynngina mátti líka nota til að halda frá sér óæskilegum öflum, þótt ekki sé það sem til er af særingum, stefnum og bænum í takt við opinberar kenningar kirkjunnar. Sumt af þessu efni er til þess gert að koma draugum til síns heima, stefna frá sér öndum og púkum eða til að halda tófunni fjarri búskapnum. Þá virðist fólk hafa haldið tryggð við katólskar alþýðubænir sem sumar hverjar hafa varðveist í galdrabókum.

Sumar stefnur og særingar eru undarlega blanda þar sem heilög þrenning og María mey eru ákölluð ásamt Þór, Óðni og fleiri heiðnum goðum. Aðrir textar innihalda blöndu af miðaldadulspeki og brengluðum latínutextum, en lengi fram eftir héldu menn upp á blöð með brotum úr Biblíunni á latínu og töldu slíkt hafa verndarkraft. Það sem heyra má í Kotbýli kuklarans er aðeins lítið brot af þessum textum, en eru flestum ókunnir.

Einnig hljóma þar glefsur með röddum genginna Strandamanna úr safni hljóðritana sem varðveitt er hjá Stofnun Árna Magnússonar.

Mailing list