Verði þoka ok verði skrípi

Í Njálu er sagt frá fyrsta Bjarnfirðingnum, Svani á Svanshóli, syni Bjarnar þess sem nam allan núverandi Kaldrananeshrepp. Svanur var móðurbróðir Hallgerðar langbrókar og tók að sér að geyma Þjóstólf þræl Hallgerðar eftir að hann hafði drepið mann hennar. Njála segir um Svan að hann hafi verið:
fjölkunnugur mjög ... hann var ódæll og illur viðureignar.
Þegar Dalamenn riðu á Bjarnarfjarðarháls til að hefna Þorvaldar sóttu fylgjur að Svani. Hann bað Þjóstólf ganga út með sér, vafði geitarskinni um höfuð sér og mælti:
Verði þoka
ok verði skrípi
ok undur öllum þeim,
er eptir þér sækja.
Brá þá svo við að á hálsinn kom þoka svo Dalamenn sáu ekkert frá sér:
ok féllu þeir þá af baki ok týndu hestunum ok gengu í fen
ofan sjálfir, en sumir í skóginn, svá at þeim helt við meiðingar;
þeir töpuðu af sér vápnunum.
Þeir reyndu í þrígang að komast yfir hálsinn en alltaf steyptist þokan á móti þeim en henni létti þegar þeir hurfu frá. Sagt er að Svanur hafi gengið í gjána ofan við Svanshólsbæinn og komið út í Kaldbaksvík norðan fjallgarðsins og róið þaðan til fiskjar.

Svanur lauk æfi sinni í róðri og sögðu fiskimenn í Kaldbaksvík að hann hefði þá gengið upp Svansgjá í Kaldbakshorni og inn í fjallið:
ok var þar vel fagnat.

Snorri á Svanshóli
Löngu síðar, á átjándu öld bjó annar galdramaður á Svanshóli. Sá hét Snorri og þótti einrænn og ómannblendinn. Hann lagði fyrir dóttur sína að lík sitt skyldi ekki fært til kirkju heldur grafið í bæjarhólinn. En þótt dóttirin væri öll af vilja gerð tók sóknarpresturinn slíkt ekki í mál og skipaði að líkið skyldi flutt að Kaldrananesi. En illa gekk flutningurinn því kistan sveiflaðist stöðugt af hestinum og var svo þung að það kostaði mesta basl að koma henni aftur fyrir. En þegar komið var niður fjörð þar sem sagnir gengu um að væri forn greftrunarstaður léttist kistan skyndilega og gekk ferðin greiðlega eftir það.

Hálfri öld síðar þegar verið var að taka gröf á Kaldrananesi kom kista Snorra í ljós og var opnuð. Ekki fundust bein, tennur eða hár í líkkistunni, einungis leifar af fötum og það sem Snorri hafði sagt dóttur sinni að setja með sér í kistuna, urriða, hefilspænir og forneskjublöð.

Árni hét sonur Snorra og hafði lítinn áhuga á forneskju föður síns. Það eina sem hann þáði úr búi karlsins var mórauður smalahundur sem Snorri hafði haft alla tíð og hafði þann eiginleika að enginn þurfti að stjórna honum. Sérhvern dag skilaði hann ánum heim að stekk en hafði aldrei sést heima við bæ og enginn þurfti að bera honum mat. Á veturnar hvarf rakkinn en birtist svo strax eftir fráfærur. Rakkinn flutti sig óbeðinn heim að Bakka og aldrei sást hann nær Bakkabænum en á neðsta hjallanum þegar féð rann heim á hlað.

Mailing list