Aðrir bjarnfirskir galdramenn

Bjarnarfjörður mun ekki hafa verið á alfaraleið fyrr en á 20. öld. Fram að þeim tíma ferðuðust menn norður yfir jalllendið ofan byggðar. Fyrir bragðið er fátt vitað um líf manna í Bjarnarfirði fyrr en á galdraöld. Heimildir nefna tvö galdramál sem upp komu í Bjarnarfirði og margir íbúar þar tengdust máli Klemusar Bjarnasonar sem síðastur var dæmdur til dauða fyrir galdur á Íslandi.

Guðrún Magnúsdóttir ákærði þrjá menn árið 1660 fyrir að hafa valdið ókennilegum veikindum sem lengi höfðu hrjáð hana, en ekki er vitað hvernig því máli lauk. Árið 1676 var Jón Pálsson hýddur á Kaldrananesþingi en í fórum hans höfðu fundist níu galdrablöð:

með upp á dregnum marg slags óvenjulegum caracteribus með tveimur tóustefnum, einninn margháttaðri og óviðurkvæmilegri vanbrúkun guðs heilaga nafns
Bjarnfirðingum þótti brotið ekki stórt fyrst Jón hafði ekki gert neinum mein en hann var engu að síður dæmdur til að hýðast sem næst gangi lífi og blöðin átti að brenna upp í nasirnar á honum.


Á átjándu öld eftir að galdrafárið var liðið hjá bjó Jón glói, víðfrægur galdramaður í Goðdal. Hann sýndi meðal annars sýslumanni að hann kynni að vekja upp draug. Kona Jóns glóa var grunuð um að ala tilbera.

Mailing list