Fortíðin á Ströndum

Kæru Strandamenn, maður verður að þekkja fortíðina, ekki satt? Ekki síst þegar hún er fyndin. Lítum aðeins á það merka blað Spegilinn sem einnig hét Samviska þjóðarinnar, góð eða vond eftir ástæðum og hóf göngu sína 1926. Blaðið hafði sérstaka aðferð við að segja fréttir. Hér er lítið dæmi: Árið 1931 kom upp umræða hjá pólitíkusum um að banna eggvopn. Orðin um tillöguna í Speglinum voru ekki mörg, athugasemdin var einfaldlega teiknuð.

Sá hægra megin er dómsmálaráðherrann, Jónas Jónsson frá Hriflu, og sá sem mundar hefilinn er Vilmundur Jónsson landlæknir.

Sá sem teiknaði ógrynni mynda í Spegilinn áratugum saman var einhver merkasti myndlistarmaður af Ströndum. Hann hét Tryggvi Magnússon og var listmálari og besti grínteiknari landsins. Hann var líka sá sem gerði Ægishjálminn að skjaldarmerki sýslunnar og myndir hans getið þið þekkt með þessari bandrún hans:

Tryggvi fæddist á Bæ á Selströnd 1900. Nýlega fannst á Selströnd gömul kennslubók í málfræði sem Tryggvi hefur haft undir höndum. Í henni má sjá að hann hefur snemma verið fær teiknari. Í bókina hefur hann skrautritað nafn sitt og æft drekamyndir.

Og kannski á Tryggvi sinn þátt í þeim fréttum af Ströndum sem komu í blaðið, hver veit. Komum síðar að öllu því sem fylgdi pólitíkinni í einmenningskjördæminu Strandasýslu en fyrir Spegilinn greip Tryggvi upp undarlegustu fyrirsagnir dagblaðanna og myndskreytti þær.

Þótt Tryggvi væri Strandamaður eru fáar stórfréttir af Ströndum. En samt detta þær inn og þá gjarnan um eitt og annað sem enn þann dag í dag er til umræðu í samfélaginu. Hver hefur ekki heyrt eitthvað um nýtt fangelsi á Íslandi? Hér er frétt frá 1927:

Frá Borðeyri símar lögfræðislegur ráðunautur og frjettaritari Spegilsins: Sýslumaður hefur fengið loforð dómsmálaráðherra fyrir að hið nýja ríkisfangelsi skuli reist á Borðeyrartanga. Til bráðabirgða hefir þegar verið smíðaður allstór skúr og í hann skotið nokkrum íhaldshreppstjórum til gæslu. Er talið víst að þeir muni fást til að játa yfirsjónir sínar og íhaldsstjórnarinnar þegar þeir eru búnir að vera í skúrnum vetrarlangt, verði þeir ekki dauðir áður. En þar eð skúrinn er gluggalaus og ofnlaus og þeir sumir óhraustir má búast við hinu og þessu í þá átt af þeim.

Sama ár birtist önnur grínfrétt frá Trékyllisvík: „Mikil hátíðahöld er frjettist að hyrningasteinn þjóðleikhússins væri nú loks lagður og þá stofnað hjer fjelag, sem fjekk nafnið »Velvakandi«. Er markmiðið þess að kaupa hátalara á hvern bæ, til þess að geta heyrt til hinna nýju leikenda, sem koma eiga. Veitir ekki af þessu í einverunni.“

1933 minnist Spegilinn á influtning á karakúlfé „...til þess að blanda kynið á Alþingi ... Á að kaupa fimm kindur og kostar hver á annað þúsund krónur. Er vonandi að ekki gleymist að bólusetja þær fyrir skitu, eins og sauðnautin forðum.“ Síðar er tekið fram að búnaðarmálastjóri sé ánægður með að karakúlféð sé komið til landsins en þar endaði málið ekki því með þeim fluttist bæði mæðiveiki og garnaveiki. En það var Strandamaður, Matthías Helgason bóndi á Kaldrananesi sem kunni að fara með hrút af þessu kyni.

Sá Páll sem Matthías nefnir var Zophaníusson ráðunautur í sauðfjárrækt en með fylgdi úrklippa úr dagblaði þar sem stóð: „Það er ekki alstaðar sem menn hafa verið eins varkárir og Strandamenn gagnvart þessu erl. fje. Einn hrútanna kom á Kaldrananes. Hann var altaf hafður þar einangraður, meðan hann tórði. En þegar Kaldrananesbóndinn, Matthías Helgason, sá, að í hrútsa var einhver ótyrming, sem ekki vildi batna. Þá lógaði hann hrútnum, reri með skrokkinn út á sjó, batt stein um han og sökti honum.“

Fyrirsagnir má skilja á ýmsa vegu og verið ástæða til túlkunar.

Ekki teiknaði Tryggvi Magnússon þetta en fyrirsögnin er úr Mogganum og í fréttinni þar kemur fram að ástæðan sú að komið var að því að hætta síldveiðum.

„Það sagði einhver áðan í útvarpinu að það „marraði í sjóskorpunni“ einhvers staðar nálægt Ströndum,“ stendur í Speglinum 1941. „Mér var illa við þetta. Bæði að sjórinn var farinn að skorpna þarna fyrir norðan og að auk þess marraði í honum. Mér fannst að það hlyti að vita á illt, a. m. k. hafís, og hafði orð á því við familíuna. „Það er bara rekdufl, pabbi“, sagði einn af strákunum. Þetta þótti mér stórum betra. Það er ekki nema gott að það heyrist í þeim, svo hægara sé að varast þau.“

En segið svo að eldgos hafi engin áhrif á Ströndum. Þessi frétt birtist í Speglinum eftir stóra Heklugosið 1947.

Og fleiri fréttir komu frá sjómönnum á Ströndum. Í Ruslakistu Spegilsins 1925 segir:

„Sjómenn frá Hólmavík, sem voru eitthvað að draga í Húnabugtinni fyrir skömmu, sáu þar svokallaða stökksíld, og má telja furðufréttir, þar sem vér höfum undanfarin ár ekki þekkt annað en trega síld. Ekki er þess getið, hvort síld þessi var kræfari í langstökki eða hástökki, en hvort sem vera kann ætti að senda hana á Evrópumeistaramótið (sem er orðið svo munntamt hér, að sum blöð eru farin að kalla það E.M.M.).“

Í júní 1955 birtir Tíminn „eina rosa-hetjusögu úr kjördæmi Hermanns, er bræður tveir stímuðu til þess að komast á dansleik, sem haldinn var í Trékyllisvíkinni. Oss hefði nú þótt fréttnæmara, ef bræðurnir hefðu lagt svona erfiði á sig til þess að greiða atkvæði með vinstristjórninni hans Hermanns – en kannske gera þeir það, þegar að því kemur.“

Tryggvi teiknaði í Spegilinn frá upphafi blaðsins 1926 en seint á fimmta áratuginum bætist við annar teiknari, Halldór Pétursson, og hér ein frétt af Ströndum með teikningu eftir hann um hvað gerðist mánuði eftir að laugin í Krossnesi var vígð.
Kýr lenti í sundlaugina á
Krossnesi, óvíst hvort hún synti 200 m.

Og loks hugmyndir dreifbýlismanns sem birtust í Speglinum 1959. Hann skrifaði þátt um hvað gæti orðið til bóta í dreifbýlinu. Þá var í umræðu að hafa aftur tvo biskupa í landinu og skyldi sá nýi hafa aðsetur á Hólum eða jafnvel á Akureyri. Þá er spurning hvort austanlands og á Vestfjörðum kæmi upp krafa um biskupa þar líka. „Þá sýnist fara vel á því að Vestfirðingar fengju sinn biskup staðsettan t. d. í Trékyllisvík á Ströndum og nefndist sá Trékyllisbiskup eða Hermannsbiskup.“

 

Í næsta pistli skulum við skoða betur mynd Spegilsins af kosningamálum í einmenningskjördæminu Strandasýslu.

2. Strandaþingmenn (fyrri hluti)

---

Til baka á efnisyfirlit