Strandaþingmenn (fyrri hluti)

Fyrstu kosningar til alþingis fóru fram 1844 og árið eftir hélt fyrsti þingmaður Strandamanna suður. Á 19. öld voru þingmennirnir flestir heimamenn en það breyttist. Og eftir því sem fer að líða á tutttugustu öldina verður einmenningskjördæmið í Strandasýslu afskaplega mikils vert því tveir síðustu Strandaþingmennirnir fengu að stjórna ríkisstjórninni. Og þannig var það einmitt þar sem við getum skoðað skemmtilegustu umfjöllunina um pólitíkina, Spegillinn er nefnilega náskyldur Baggalút. Þingmaður Strandamanna frá 1923 var Tryggvi Þórhallsson - biskupssonur, fyrrum prestur í Borgarfirði, guðfræðikennari og ritstjóri Tímans. Kjörfylgið í Strandasýslu hafði greinilega áhrif því ári síðar var hann orðinn forsætisráðherra.Árið 1930 hafa skríbentar Spegilsins gert sér grein fyrir að áhrifin héðan voru farin að hafa áhrif. Sagt er frá ferð forsætisráðherrans til Svíþjóðar þar sem hann kom á bæ og fann lítið fyrir gestrisni, en honum er þá ofarlega í huga að það vanhagaði um eldspýtur á Ströndunum. Hann sagði vinnustúlku nokkurri að hún skuli segja húsbóndanum „...að jeg sje norðan af Hornströndum, þingmaður þar og æðsti eða helsti landráðamaðurinn.“ Stúlkan hélt inn á búgarðinn og út um gluggann heyrðist hún segja, „Hjer er maður kominn norðan af Ströndum. Hann – hann gleymdi að segja til nafns síns – með voðalega barðastóran hatt á höfði ...“ Samkvæmt sögu Spegilsins tókst forsætisráðherranum ekki að bjarga Strandamönnum um eldfæri.

Einhver umræða virðist samt hafa verið í sýslunni því einn fréttaritari blaðsins segir að stofnað hafi verið „fjelag ungra Sjálfstæðismanna í Hænuvík. Sama dag reis upp öflugt fjelag ungra framsóknarmanna og jafnaðarmanna í Trjekyllisvík“. Flokkapólitíkin hafði hafið innreið sína í sýsluna. Enda varð hún ákaflega áberandi í grínblaðinu þegar kosningar stóðu til. Í kynningu á kjördæmunum 1931 var ekki að búist við neinu spennandi af Ströndunum: „Strandasýsla. Það væri beinlínis óviðeigandi, ef vjer óverðugir færum að gerast svo djarfir, að mæla með Herra vorum og meistara Tryggva Þórhallssyni, af konungsins náð forsætisráðherra. Nei, sannlega, sannlega segi jeg yður: hann er einn þeirra sem áreiðanlega mæla með sér sjálfir.“ Sennilega hefur það verið hárrétt athugasemd því þá fékk Tryggvi 75% atkvæða Strandamanna og 1933 bauð enginn sig fram á móti honum. Engin spenna í þeim kosningum. Og Spegillinn segir okkur að íhaldið hafi ekki séð ástæðu til að bjóða fram gegn Tryggva vegna heilsu hans „og svo þess, að hross eru ekki nógu vel gengin undan vetri ... Höfum vjer vakið upp eldgamalt og gott farartæki handa Tryggva, ef hann nú samt sem áður getur ekki stilt sig um að tala við Strandamenn, og er það þannig úr garði gert, að hann getur farið af stað hjeðan síðdegis og samt verið komin í bankann að morgni, til að veita þurfandi bændum lán, eða taka við afborgunum þeirra.“

En að því kom að Tryggvi tapaði og það var kannski ekki Strandamönnum að kenna, alla vegana var þeim ekkert illa við þingmanninn, en hann var ekki lengur forsætisráðherra og kominn í nýjan flokk, Bændaflokkinn, sem klofnað hafði út úr Framsóknarflokknum. Eitt af því sem Tryggvi tók sér þá fyrir hendur voru viðbrögðin við kreppunni ógurlega og ekki fór það framhjá Spegilsmönnum. „Fyrstu skuldaskilafundir í Kreppulánasjóði fóru fram í gær og voru teknar fyrir beiðnir úr Steingrímsfirði og Kollafirði. Geta kjósendur Tryggva því fyrstir manna sveiflað hinum ágætu pappírum, kreppulánabréfum.“

 Speglinum barst að sögn frétt úr Trékyllisvík um að „Trjekyllingar“ væru ánægðir með að Tryggvi væri genginn úr flokknum. En fyrir Framsóknarflokkinn geystist fram nýr maður, sjálfur lögreglustjórin í Reykjavík og fyrrverandi glímukappi Íslands, Hermann Jónasson. Svo er að sjá sem Tryggvi Magnússon hafi notið þess að teikna Hermann.

 Hann var svo sem ekki fullkominn frekar en aðrir og ofarlega á baugi voru málaferli gegn lögreglustjóranum fyrir að hafa skotið æðarkollu úti á Seltjarnarnesi. Og kannski í tengslum við það mál kom síðar fram sú tillaga að enginn megi hafa byssuleyfi nema að hann þurfi þess vegna atvinnu sinnar. Spegillinn var fljótur að sjá að tillagan hafi komið fram „með sérstöku tilliti til Strandasýslu við næstu kosningar, en þar er æðarvarp mikið“. Hermann var reyndar sýknaður en er iðulega sýndur í skopmyndum með riffil um öxl. Fyrsta skrefið í undirbúningi er náttúrulega að finna kjördæmið og undirbúa sóknina gegn Tryggva Þórhallssyni. Ja hérna, sýnir Tryggvi okkur ekki að æðarkollurnar eru á leið yfir Flóann?

 Fyrir kosningar 1937 vantaði ekki skondnar athugasemdir um slaginn um þingmannssæti fyrir Strandamenn og áróðursmenn riðu þangað dagfari og náttfari. Ekki tókst þó að neinum að koma Hermanni af þingi því „Strandamenn eru nú einu sinni þannig gerðir, að þeir endurkjósa ekki þingfulltrúa sína, ef þeir hafa orðið sjálfkjörnir. Svona fór með þá Guðjón og Magnús Pjetursson [Strandaþingmenn á undan Tryggva Þórhallssyni], og Hermann liggur ekki fyrr en hann er sjálfkjörinn.“ Sjálfstæðismenn voru nú ekki á því og kosningaátök á Ströndum héldu áfram að vera fréttaefni því ekki tóku þeir mark á þessum orðum í Speglinum en gerðu frægar tilraunir til að fella Hermann sem varð forsætisráðherra eftir kosningarnar í stjórn með Alþýðuflokki.

 Það lá hins vegar fyrir að svo sannarlega átti að koma Hermanni forsætisráðherra af þingi og gegn honum mætti sjálfstæðismaðurinn Ólafur Thors. Helstu rökin gegn Hermanni voru tengd nóvemberslagnum 1932 þegar slegist var í Reykjavík vegna kauplækkunar í atvinnubótavinnu. Ólafur var þá dómsmálaráðherra og vildi meina að Hermann lögreglustjóri hefði komið í veg fyrir varnir með því að vilja ekki koma upp vel vopnuðu liði og æfa það í Sundhöllinni. Úr því varð ekki og að sögn Ólafs var það allt lögreglustjóranum þáverandi, Hermanni þingmanni Strandamanna, að kenna.

 Á þessum tíma voru póstflutningar ekkert svipaðir því sem við þekkjum og alltaf hætta á að blöðin væru orðin úrelt þegar þau kæmu norður. Þannig var sagt að forsætisráðherrann hefði gerst landpóstur til að Strandamenn fengju blöðin með öllum áróðrinum fyrir kosningar því póstmeistara þótti hið besta mál að nota ferð hans á kosningafund norður á Hólmavík. Og um þann kosningafund var mikið skrifað um og eftir kosningar.
.

Að sögn var gríðarlegur hiti á kosningafundinum í Hólmavík og Mogginn gaf til kynna að Hermann hefði verið tættur í sundur. Á sjálfan kjördag varð svo framhald Hólmavíkurfundarins í Reykjavík forsíðufrétt í Mogganum. Þar var því haldið fram að glímukóngurinn Hermann hefði ærst í útvarpshúsinu og reynt að skella Ólafi á leggjarbragði.

 En ekki hafði þetta áhrif á val Strandamanna því þeirra maður, forsætisráðherrann, bætti bara við sig atkvæðum. En Hólmavíkurfundurinn var ryfjaður kyrfilega upp (frá ýmsum pólitískum hliðum) þegar rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu að ekkert hefði verið Hermanni að kenna varðandi nóvemberslaginn.

 Stjórnmálamenn í gamla daga þurftu náttúrulega að halda kjósendunum við efnið og ekki þurfti alltaf kosningar til að pólitíkin á Ströndum kæmist í Spegilinn. Tveimur árum eftir kosningarnar hélt Hermann sem þá var kominn í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn, fundi í Strandasýslu sem kostuðu aðra mynd í Speglinum. Á Hólmavík þóttu Sjálfstæðismenn nefnilega svolítið fjölmennir og þar var Hermann hinn hógværasti út í nýja samstarfsflokkinn en rakkaði þá svo niður á Kaldrananesi sem hann taldi „fyrirheitna landið“ því þar fannst honum að væru nær eingöngu hans menn. Og mismunandi ræður kostuðu blaðagreinar og í Speglinum teikningar Tryggva Magnússonar með fyrirsögn úr Vísi. „Íhaldið er farið að skána“ á Hermann að hafa sagt í Hólmavík en „Íhaldið er kommar og nasistar“ á Kaldrananesi.

 Spegillinn birti 1946 fréttabréf af Ströndum með skondinni lýsingu á Hólmavík. Sá sem skrifaði átti að halda norður og leita að þeim atkvæðum sem Hermann tapaði í kosningum þá um sumarið. (Fækkaði úr 568 haustið 1942 í 461 1946. Reyndar talar skrifarinn um tvö hundruð töpuð í stíl við ýkjur Spegilsins.) Hann flýgur niðurreirður með Gruman flugbát og lýst ekki vel á að „andskotast þarna um alla höfnina, svo mér dettur í hug gjörningaveður, því þeir ku vera göldróttir norður þar.“ Eftir að hafa brasað yfir fjölda báta til að komast í land, spyr hann heimamenn um týndu atkvæðin en er engu nær því honum er sagt að þau séu engin. „Geng samt upp á hótelið út úr vandræðum. Þegar þangað kemur er ekkert búið af því nema kamarinn, og mér skilst, að það eigi aldrei að vera meira, heldur eigi gestir að hírast hjá kunningjum sínum.“ Um plássið segir hann: „Skepnuhöld eru góð, einkum tóu, en tóuna hafa þeir í haldi og hleypa henni svo út, þegar þarf að fækka hænsnum eða sauðfé, en veiða hana svo bara aftur með höndunum, með þakklæti fyrir unnið starf. Eyðibýlagerð er í betra lagi, enda er það eftir plani Hermanns, sem engar framfarir vill hafa, en hefur aftur á móti hugsað sér að gera kjördæmið að fornminjasafni (Frilandsmuseum trúi ég það heiti á dönskunni, enda skrapp Hermann yfir pollinn og forframaðist á forsætisráðherradögum sínum). Ku safnið eiga að opnast almenningi á hundrað ára afmæli nýsköpunarinnar.“

 En auðvitað héldu menn tryggð við pólitíkus sem kyssti börn kjósenda. Hann hefur kannski verið á undan sinni samtíð því þetta hafa forsetaframbjóðendur í Bandaríkjunum tíðkað löngum.

Í næsta pistli höldum við áfram að skoða kosningamál í Strandasýslu.

3. Strandaþingmenn (seinni hluti)

---

Til baka á efnisyfirlit