Strandaþingmenn (seinni hluti)

Einmenningskjördæminu Strandasýslu hélt Hermann Jónasson með miklum yfirburðum í næstu kosningum þótt ekki sæti hann í ráðherrastól. En 1949 gerði Sjálfstæðisflokkurinn harða hríð að honum samkvæmt Speglinum og ekki var auðveld barátta fyrir höndum.Í kvæðinu „Kosningauggur og annar ófögnuður“ segir:

„Hertygjaður ríður Hermann um sveitir
hörku og blíðmælgi jöfnum höndum beitir
ónota skömmum að íhaldinu hreytir, ...“

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í þetta sinn var Eggert nokkur Kristjánsson stórkaupmaður. Vildu sumir meina í blaðagreinum að hann hefði komið í veg fyrir að heimamenn fengju fjármagn til að bjarga frystihúsinu á Kaldrananesi því í kosningabaráttunni væri gott að brúka framtíðaráform sín á svæðinu, sem svo varð ekkert úr. Spegillinn birti bráðfyndna grein með teikningum eftir Halldór Pétursson um ferð Eggerts og utanríkisráherra, Bjarna Benediktssonar, á kosningafund í Hólmavík. Að sjálfsögðu trúir enginn sögunni en hún er jafngóð fyrir það hvort sem um er að ræða lýsingunni á pólitíkusunum eða heimamönnum. Stórkaupmaðurinn þekkti greinilega ekki svæðið. Hann var til dæmis afar hissa yfir að á Hólmavík væri fólk. Og á útifundi voru ræðumenn dregnir upp á klett svo utanríkisráðherra og frambjóðandinn sæjust, en báðir voru all lágvaxnir. Heimamenn höfðu mestan áhuga á Baldri búktalara og brúðunni Konna en lítinn áhuga á ræðu Eggerts. Ýmislegt kemur fram í frásögninni og tengist þeim málum sem þá voru efst á baugi. Þannig er Eggert látinn segja að hann sé „búinn að kaupa Kaldrananes og ætlaði að kaupa meira, bæði Drangsnes og Hólmavík, það væri það minnsta, sem hann gæti gert fyrir þá ... Og brýrnar hans Hermanns kæmu aldrei, þær væru bara í höfðinu á honum“. Hitamál á Ströndum hafa greinilega verið á margra vörum, óbrúaðar ár og frystihúsið á Kaldrananesi. „Þegar líða tók á nóttina heyrðist sagt mann á milli: - Hvort viltu heldur viský fyrir eina brú eða eina rafveitu?“ Ekki varð þessi áróðursferð árangursrík fyrir sjálfstæðismenn því atkvæðum Hermanns fjölgaði og í annál ársins segir líka í Speglinum:

„ ... og framar engin Íhaldströll
ógna Hermanns löndum.
Nú er líka uppseld öll
íshúsin á Ströndum.“

Ekki eru Strandir bara nefndar í tengslum við Hermann þegar kosningar voru annars vegar en gjarnan er vitnað til þeirra, ekki síst í tilbúnum setningum frá Hermanni. Á þessari mynd sýnir Hermann dansnaut sínum á Framsóknarballi hvernig hann sneri niður öll þarfanaut í Strandasýslu. Við verðum að gera ráð fyrir að bændur hafi beðið eftir Hermanni ef nautin voru óþekk.

Það hefur sennilega aldrei horfið mönnum úr huga að kannski yrði reynt aftur að koma Hermanni af þingi því 1954 er nefnt í Speglinum að á Ströndum hafi „varla hafi orðið reka vart, og þykir furða í einu rekasælasta plássi landsins, fyrr og síðar.“ Hinsvegar reki netakúlur og þá er spurning hvort einhver útgerðarmaður fari næst fram gegn Hermanni.

Alveg reyndist sama hvað gert var til að losa Strandamenn við Hermann, það er að segja ef við trúum Speglinum. Þar er árið 1955 var stungið upp á nýrri hugmynd fyrir andstæðinga hans: „Í Árneshreppi, sem er nyrzti og kaldasti hreppur Hermanns, voru að þessu sinni eplalaus jól. Þykir þeim háttvirtu Hermann hafa staðið allilla í ístaðinu fyrir kjósendur sína, einkum er þarna við bætist, að í öllum hreppnum er ekki upp að drífa barnatúttur né tvinna, svo að eitthvað sé nefnt, er til fatnaðar og fjölgunar mannkynsins heyrir. Hér virðist vera leikur á borði fyrir einkaframtakið að vopna sig túttum og tvinnakeflum og svæla kjördæmið undan Hermanni.“ Og á myndinni þrammar Bjarni Ben með glaðning fyrir Árneshreppsbúa.

Áður hafði lítið borið á gagnrýni sem Hermann fékk af Ströndum. En 1954 andmælti hann grein Regínu á Gjögri um þarfir dreifbýlisins og kannski tekið nokkuð stórt upp í sig. En Regína svaraði af bragði með pistli í Mogganum og endaði á orðunum: „Ég hlýt að eiga fulla heimtingu á því að þingmaðurinn birti opinberlega upp úr grein minni, hvað það er, sem hann kallar þar níð og öfugmæli, lygar og staðleysur. Geri hann það ekki – þá hefur glímumaðurinn gamli og kraftakappinn mikli, hans Jónasar frá Hriflu, legið á sjálfs sín bragði – og það fyrir konu.“

Hermann varð aftur forsætisráðherra 1956 en það var líka í síðasta sinn sem kosinn var þingmaður Strandasýslu, 1959 var það orðinn hluti af Vestfjarðakjördæminu. En Hermann sat áfram á þingi fyrir Vestfirðinga alla svo það sannaðist sem Spegillinn sagði 1934 að menn töpuðu ekki kosningum á Ströndum fyrr en þeir hefðu verið sjálfkjörnir. Og þegar síðara tímabili Hermanns sem forsætisráðherra lauk 1958 er aðstoðarmaður Hermanns látinn segja: „... mikið held ég að nú verði séð eftir þér – og okkur báðum – að minnsta kosti í Strandasýslu. Ég hafði ekki flóafrið í allan gærdag fyrir símahringingum, bæði frá Hólmavík og þar sögðu þeir að yrði hreinasta þjóðarsorg, og svo Gjögri .... – Var líka þjóðarsorg þar? spurði Hermann og brosti nákuldalega. – Jæja, það var mesta furða. Mér skildist, að þeir væru hreint ekki fríir þar heldur, þó að þeir væru kannske ekki út af eins slegnir og Hólmvíkingar.“

Um þetta leyti fara að birtast Bréf úr sveitinni frá Jóni Jónssyni á Bjargráðastöðum. Sá maður sækir ýmislegt til Hermanns, en 1960 minnist hann á að hann sé formaður viðkomandi skógræktarfélags. „Mér var að detta í hug,“ skrifar hann, „að stinga því að þér, hvort þú mundir ekki geta, þér að óþæginda og útlátalitlu sent okkur nokkrar plöntur til að gróðursetja í hvamminum sunnan við samkomuhúsið; það mundi verða vinsælt, og hver veit nema ég gæti komið því til leiðar, að hvammurinn yrði kenndur við þig, kallaður Hermannslundur, til dæmis. Það væri alls ekki einskis virði, svona pólitískt séð, þú skilur.“


4. Gamlar hugmyndir

---

Til baka á efnisyfirlit