Gamlar hugmyndir

Alveg er ótrúlegt þegar maður skoðar gömul blöð hvað þjóðfélagsumræðan breytist lítið. Stundum er orðalagið það sama og það sem sést í fréttamiðlum og orðum pólitíkusa í dag og stundum verður maður alveg forviða yfir hvað langan tíma hefur tekið að koma hlutunum í verk og sumum alls ekki.

Öðru hverju er verið að ræða um betrumbætur í dómgæslu í fótbolta. Spegillinn segir mér að þetta hafi verið rætt árið 1935. „Tveir dómarar í knattspyrnu er nýjasta nýtt á sviði íþróttanna. Oss finnst þetta einhver merkasta nýjung, sem lengi hefur komið fram á því sviði, því þegar misklíð kemur upp, geta dómararnir slegist um úrslitin en knattspyrnumennirnir hvílt sig á meðan.“

Lengi hefur verið rætt um hvernig eigi að spyrna á móti fækkun í dreifbýlinu. Enginn nema Spegillinn hefði getað séð að hugmyndir um að auka tekjur Strandamanna fylgdu með aðgerðum gegn fjölgun í Reykjavík. Jónas frá Hriflu var nýorðinn bæjarfulltrúi í Reykjavík 1938 og vildi stöðva flutning á mölina. Bent er á að Jónas sé svo hrifinn af miðaldamenningunni þar sem menn voru tjóðraðir við sína þúfu.

„Fyrst af öllu sendir skógræktarstjóri skeyti til vina sinna á Ströndum og pantar staura. Verða þeir svo fluttir víðsvegar um hinar dreifðu byggðir og reknir niður rambyggilega.“ Við þá skal svo binda menn til að koma í veg fyrir brottflutning úr sveitunum.

Ekki eru ferðamálin fátíð í umræðum í dag og lengi hafa menn séð betrumbætur gagnvart túristunum. Mönnum datt til dæmis í hug 1945 að það þyrfti að bæta aðkomu ferðamanna á Keflavíkurflugvelli. Og Tryggvi Magnússon útfærði hugmyndina.

Og mönnum datt líka í hug fyrir sextíu árum að jöklarnir okkar gætu dregið til sín auðuga ferðamenn. Í einhverju blaði rákust Spegilsmenn á eftirfarandi texta sem þeim þurfti nauðsynlegt að myndskreyta:

Í þessu sambandi minnist ég þess, að Jöklarannsóknarfélagið vill gera jökla landsins að leikvelli auðkýfinga úti um heim, sem hafa notið allra venjulegra skemmtana hvar sem er, og þurfa að fá eitthvað nýtt til að hressa upp á sig. Það er tilvalin hugmynd, og ætti að geta gefið drjúgan arð hér á landi.

Árið 1943 kom fram sú tillaga að strika tvö núll aftan af krónunni. Ekki komst það í verk fyrr en 1980. Það var þó gert en hin tilagan sem kom fram sama ár er enn í umræðunni, það er að útrýma minkunum alveg.

Kannski er það venja Íslendinga að bíða áratugi eftir að gera hugmyndir að veruleika. Enda hvað ættum við að ræða ef hlutirnir gerast bara strax. Þannig tók þingmaður Barðstrendinga svo sterkt til orða árið 1945 að þar í sýslunni væri steinaldarflutningakerfi. Speglinum þótti þetta athyglsivert, kannski vegna þess að á steinöld bjó enginn á Íslandi.

Og svo er það blessuð krónan. Þessar vísur Balla, eins af ljóðskáldum Spegilsins, gæti alveg eins verið ort í gær.

Ó, hrösula króna, sem áður varst þjóðarstolt
og eðlasti þáttur í landsins viðreisn og menning,
í velgengni lifirðu hærra en þér var hollt,
og hefur nú fallið með hverjum erlendum penning.

Nú hefur þitt freklega daður við dollar og pund
í dilkinn þér skipað hjá götunnar léttúðgu fljóðum.
- Sem heiðarleg meykerling áttirðu alla stund,
óspillt og hreinlíf að dvelja í mörlandans sjóðum.

Og svo allt sem er orðið að veruleika en engum dettur lengur í hug hvað það tók langan tíma. Spegillinn gerði sér grein fyrir 1948 að til að ná einhverju fram þyrfti að biðja um meira en hugur stóð til.

„Ísfirðingar hafa nú skorað á Alþingi að stofna menntaskóla fyrir Vesturland og eins fyrir Austurland. Þetta með Austurland mun vera klókindabragð, til að sýna óeigingirni. Það sér á, Ísfirðingar góðir, að þið hafið ekki verið daglegir gestir í Viðskiptaráðuneytinu sáluga, meðan það stóð upp á sitt besta. Heimtið þið háskóla, þá fáið þið kannski menntaskóla.“

En Vestfirðingar hafa ekki tekið upp þetta heillaráð því 1951 birtist frétt um hugsanlega stóriðju á Reykhólum. Um hana sagði Spegillinn „Vér hefðum nú haldið, að hér væri nóg af þörum og þöngulhausum, svo að ekki þyrfti sérstaka verksmiðju til að framleiða slíkan varning.“ Það tók meira en tvo áratugi áður en hún komst í gang. Og ári síðar var víst mælt fyrir brú yfir ósa Ölfusár. Hún var ekki opnuð fyrr en meira en þrjátíu árum síðar.

---

Til baka á efnisyfirlit