Image
Rannsóknir á hvalveiðum baska halda áfram
Síðastliðið haust var hafist handa við fornleifarannsóknir á Strákatanga í Hveravík við norðanverðan Steingrímsfjörð. Þá voru grafnir könnunarskurðir til að kanna búsetu baskneskra hvalveiðimanna á Ströndum. Nú hefur Fornleifasjóður styrkt áframhaldandi vinnu við verkefnið, en Baskarannsóknin var ein af sjö fornleifarannsóknum sem fengu styrk úr sjóðnum á þessu ári. Fékkst 600 þúsund til framhaldsrannsóknar, en unnið er að fjármögnun víðar til að hægt sé að vinna áfram að verkefninu næstu ár.

Rannsóknin er samvinnuverkefni Strandagaldurs, Náttúrustofu Vestfjarða og kallast Hvalveiðar Baska á Íslandi á 17. öld. Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða stjórnar verkinu ásamt Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi og stjórnarformanni Strandagaldurs.

Rannsóknin á hvalveiðum Baska við Ísland hefur vakið mikla eftirtekt bæði hér á landi og erlendis og margar fyrirspurnir borist vegna þeirra, en minjarnar á Strákatanga hafa alþjóðlegt gildi þar sem mannvirkin voru reist af erlendum mönnum og eru af sömu gerð og hvalveiðistöðvarnar í Red Bay við Nýfundnaland og annars staðar á Norður-Atlantshafssvæðinu. Rannsóknir á minjum eftir erlenda hvalveiðimenn eru taldar auka skilning á upphafi hvalveiða á N-Atlantshafi og útskýra hvaða áhrif vera þessara erlendu manna hafði á íslenskt samfélag.

Smelltu hér til að lesa frumskýrslu vegna þessara fornleifarannsókn.