Dalbær á Snæfjallaströnd
Dalbær á Snæfjallaströnd
Snjáfjallasetur á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi mun þann 24. júní næstkomandi halda málþing og efna til sýningar um Spánverjavígin sem áttu sér stað árið 1615. Verkefnið er unnið í samvinnu við verkefnið Vestfirði á miðöldum, Strandagaldur, Náttúrustofu Vestfjarða og fleiri aðila. Sýningin og málþingið verða í Dalbæ á Snæfjallaströnd 24. júní 2006 kl. 15-18, í næsta nágrenni við þá staði þar sem vígin áttu sér stað. Er ókeypis á málþingið og sýninguna þennan dag. Á dagskránni er einnig vettvangsskoðun með leiðsögn í Æðey, Sandeyri og Ögur.

Á málþinginu í Dalbæ og á sýningunni verða samskiptum Íslendinga og Spánverja/Baska á 17. öld gerð skil; fornleifarannsóknum sem tengjast samskiptum við Spánverja/Baska, sögulegum forsendum Spánverjavíganna og eftirmálum þeirra, hvalveiðum Baska og viðskiptatungumálinu lingua franca, útbreiðslu þess og þýðingu fyrir samfélag þess tíma.

Fyrirlesarar verða Selma Huxley, sem hefur áður komið hingað til lands og hefur í áratugi rannsakað sjóferðir Spánverja til Íslands og Nýfundnalands og hefur sérstaklega rannsakað Spánverjavígin á Vestfjörðum og sögu skipstjóra þeirra, Martins de Villafranca.

Einnig flytur fyrirlestur Michael Barkham, sem er doktor við Harvard og hefur sérstaklega rannsakað hvalveiðar Spánverja; Henrike Knörr, formaður Basknesku Akademíunnar, sem hefur rannsakað viðskiptatungumálið "lingua franca" sem þróaðist í samskiptum Spánverja og Íslendinga á 17. öld; Torfi Tulinius, formaður verkefnisins Vestfirðir á miðöldum, mun fjalla um það hvort víg Spánverjanna hafi verið fjöldamorð.

Þá mun Magnús Rafnsson, sagnfræðingur hjá Strandagaldri, mun kynna fornleifarannsóknir í Steingrímsfirði sem hafa leitt í ljós leifar spænskrar hvalveiðistöðvar og hann mun einnig fjalla um Jón lærða, sem skrifaði rit um Spánverjavígin skömmu eftir atburðina; Már Jónsson sagnfræðingur mun fjalla um Ara í Ögri sem stjórnaði aðförinni að Spánverjum; Trausti Einarsson sagnfræðingur mun fjalla um hvalveiðar Spánverja við Ísland og Sigurður Sigursveinsson mun fjalla um Spánverjavígin og Martin de Villafranca.

Á Jónsmessukvöldvöku kl. 20 um kvöldið flytur Steindór Andersen kveðskap eftir Jón lærða og Elfar Logi Hannesson flytur frumsaminn leikþátt sem byggir á upplifun Jóns lærða á Spánverjavígunum.

Nánari upplýsingar gefur Ólafur J Engilbertsson, This e-mail address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it