ImageAnnað bindi í þriggja bóka teiknimyndaseríunni Islandia eftir franska höfundinn Marc Védrines kemur út í Frakklandi í næsta mánuði en eins og kunnugt er þá sækir höfundurinn innblástur í Galdrasýningu á Ströndum. Aðalsöguhetjan er franskur piltur á táningsaldri, Jacques að nafni, sem ræður sig um borð í franskt fiskiskip sem heldur til veiða við strendur Íslands á 17. öld. Í fyrsta bindinu sem kom út í maí á síðasta ári er fylgst með ferðalagi piltsins sem lagði upp í hættuför frá Frakklandi til Íslands til að skilja dularfullar sýnir sem höfðu birst honum frá barnæsku. Hann uppgötvaði í leit sinni að það er dularfullt samhengi milli drauma hans og íslenskra galdra og hann dróst inn í atburðarás galdraofsókna sem áttu sér stað í landinu á þeim tíma. Í lok fyrra bindis var Jacques hinn ungi orðinn eftirlýstur af íslenskum yfirvöldum vegna galdraáburðar.

Í öðru bindinu sem heitir Islandia - Les fjords de l'ouest og gæti útlagst sem Ísland - Vestfirðir, er fylgst með dularfullri og ævintýralegri ferð hans um Strandir, Vestfirði og víðar um landið.

 

Forsíða fyrsta bindis
Forsíða fyrsta bindis
Á ferð sinni kynnist hann íslenskum útlaga sem einnig er á flótta undan yfirvöldum vegna galdraáburðar og þeir taka höndum saman til að bjarga eigin skinni og skilja betur bernskusýnir Jacques. Hluti sögunnar fer fram í Kotbýli kuklarans þar sem Stína býr ásamt föður sínum, en þau skutu skjólshúsi yfir hann í fyrra bindinu. Faðir Stínu er ákærður fyrir heiðinn galdur í þessu bindi og brenndur á Þingvöllum. Aðferðin við brennuna á Þingvöllum minnir á aftöku Lassa Diðrikssonar sem var brenndur árið 1675 að „saklitlu að sumir héldu", en illa gekk að brenna Lassa vegna rigningar og slokknaði eldurinn þrisvar.

 Höfundurinn, Marc Védrines, kom í heimsókn á Galdrasýningu á Ströndum fyrir nokkrum árum og heillaðist svo af viðfangsefninu að hann ákvað að næsta myndasería sín skyldi fjalla um galdra á Íslandi. Sem stendur hefur teiknimyndaserían einungis verið gefin út á frönsku en vonir standa til að hún komi einnig út á Íslandi, en Strandagaldur mun vinna að því að fá hana einnig útgefna á íslensku. Marc teiknar söguna sjálfur og semur hana. Útgefandi teiknimyndabókaflokksins Islandia í Frakklandi er Dargaud sem er stærsta forlag teiknimyndasaga í Frakklandi og eitt það stærsta í heimi. Hér að neðan er að sjá nokkrar teikningar úr bókinni en þriðja og síðasta bindið kemur út á næsta ári.

Hægt er að versla fyrra bindið á amazon.fr með því að smella hér en seinna bindið kemur út í mars eins og áður er nefnt.

Image