Jón lærði Guðmundsson

ImageJón Guðmundsson fæddist í Ófeigsfirði árið 1574, og ólst upp þar og á Ósi við Steingrímsfjörð. Hann var ýmist nefndur Jón málari eða smiður eða tannsmiður (mun þá átt við að hann hafi skorið út í hvaltennur) en hlaut síðar viðurnefnið hinn lærði. Hann var fræðimaður, handritaskrifari, fær handverksmaður, lækningamaður og sennilega almennt álitinn fjölkunnugur.

Í verkum Jóns sameinaðist hinn forni menningararfur, hjátrú alþýðunnar og fræðimennska. Á 17. öld þegar margir lærðir menn þjóðarinnar skýrðu hörmungar aldarinnar samkvæmt kennisetningu lúterskunnar sem réttmæta refsingu guðs við synduga þjóð, stóð Jón uppi sem víðsýnn og gáfaður alþýðumaður og leyfði sér að rita í jákvæðum anda gegn þröngsýni og taldi heimskulegt að láta katólskuna lönd og leið, af henni mætti margt læra.

Á árunum 1611-12 á Jón lærði að hafa kveðið niður tvo drauga að Stað á Snæfjallaströnd með mögnuðum galdrasæringum, kvæðunum Fjandafælu og Snjáfjallavísum. Af þessum afrekum ávann Jón sér nokkrar vinsældir og virðingu meðal alþýðu.

ImageJón lærði hafði töluverð samskipti við baskneska hvalfangara á Ströndum og aðstoðaði þá þegar þeir brutu skip sín í Reykjarfirði. Hann var eini maðurinn sem opinberlega andmælti Spánverjavígunum 1615 og hrökklaðist af Vestfjörðum undan ofsóknum sýslumannsins Ara í Ögri vegna skrifa sinna um málið. Eftir það settist hann að undir Jökli og stundaði m.a. lækningar, en eftir að sr. Guðmundur Einarsson á Staðastað skrifaði Hugrás gegn Jóni fluttist hann á Akranes. Guðmundur sonur hans kærði Ólaf Pétursson umboðsmann á Bessastöðum fyrir galdra og í framhaldi af því kærði Ólafur Jón fyrir lækningakver nokkurt og var Jón dæmdur útlægur af landinu fyrir kukl. Jón komst til Kaupmannahafnar og fékk málið tekið upp að nýju en á Alþingi 1637 var dómurinn staðfestur.

ImageJón lifði það sem eftir var ævinnar austur á Héraði, mest fyrir tilstilli Brynjólfs biskups Sveinssonar og þar skrifaði hann stóran hluta þeirra verka sem varðveitt eru eftir hann og eru flest skrifuð að beiðni biskups. Sennilega slapp Jón við brennu bæði vegna þess að brennuöldin var varla gengin í garð og fyrir orð biskups.