Undrin í Trékyllisvík

Árið 1652 fór að bera á miklum og undarlegum veikleika meðal íbúa Trékyllisvíkur á Ströndum, einkum hjá kvenfólkinu. Í Ballarárannál er þessum undrum lýst svo:

„Það haust kom ókyrleiki og plága af vondum anda eður draugi í Trékyllisvík, með því móti, að opt á einum degi og mest í kirkjunni, þá prédikað var, vissu menn ei betur, en hann hlypi ofan í kverkar á fólki, svo það fékk mikla ropa og síðan ofurfylli, en þá það létti af fann það á sér ekkert mein; fengu það þær kvenpersónur, sem óspilltar píkur voru."

Þorleifur Kortsson, sem nýverið hafði gifst inn í Svalbarðsætt sem þá réði mestu á Vestfjörðum, tók þetta sama ár við öllum sýsluvöldum í Strandasýslu og hélt vorið 1654 norður í Trékyllisvík til að rannsaka málið nánar. Í Fitjaannál segir við þetta ár að slík harmkvæli hafi verið á kvenfólkinu að þjónustugjörð hafi tæpast verið framin í Árneskirkju fyrir

þeirra hljóðum, mási, froðufalli og ofboði, svo opt voru úr kirkjunni út bornar 4, 5, 10, 12 og fleiri á einum helgum degi, hvað skelfilegt var, en miklu skelfilegra á slíkt að horfa og nálægur vera.

Fjórir menn ákærðu Þórð Guðbrandsson fyrir að vera valdur að ósköpunum sem yfir sóknina hafi gengið. Upphaflega virðist málið hafa snúist um „kvensnipt“ sem sýslumaður hafði dæmt að skyldi dvelja hjá einum ákærendanna en hún féll niður með undarlegum veikleika í hvert sinn sem hún fór af heimili Þórðar. Var Þórði dæmdur tylftareiður á vorþinginu, en á Alþingi um sumarið notaði Þorleifur tækifærið og spurðist fyrir um hvernig hann ætti að bregðast við ef Þórður félli á eiðnum. Hélt Þorleifur af þingi með þá niðurstöðu að ef Þórði dæmdist eiðurinn ósær væri hann rétttækur undir frekara rannsak.

Á haustþinginu í Árnesi voru málin orðin flóknari. Þá játaði Þórður á sig, „óneyddur án allra þrenginga“ að hafa séð djöfulinn í tófulíki og sært hann til Trékyllisvíkur og var dæmdur til dauða fyrir. Daginn eftir var dómþing sett aftur, nú gegn Agli nokkrum Bjarnasyni. Hann var viðstaddur í járnumog viðurkenndi að hafa drepið sauð með fjölkynngi, gert samband við djöfulinn með ristingum, naglaskurði og blóðvökum. Sagði Egill að hann gæti látið fjandann útrétta fyrir sig hvað sem hann vildi og var hann einnig dæmdur til dauða. Þeir voru brenndir saman á báli þann 20. september.

Kistan í Trékyllisvík
Kistan í Trékyllisvík
Á þingunum þar sem mál Þórðar og Egils voru tekin fyrir kom fram að mikið galdraorð fór af Grími nokkrum Jónssyni, en Þórður Guðbrandsson hafði m.a. lýst því yfir að Grímur væri mestur af þeirra í göldrum. Voru 12 menn nefndir í dóm um mál hans að Árnesi og var það tekið fyrir 23. og 25. september.

Grímur viðurkenndi að hafa drepið kind með göldrum, manað djöfulinn „illt að gjöra“ og sagðist ennfremur hafa hrakið ábúandann frá Reykjarfirði með skaðlegu rúnaspjaldi og haft galdravers og særingar um hönd. Jafnframt viðurkenndi hann ótilneyddur hórdóm með þremur vinnukonum. Fyrir þetta var hann brenndur á báli 25. september.

Aftökustaður þremenninganna er þekktur, Kistuvogur eða Kista, sem er sérkennileg klettagjá á milli Litlu-Ávíkur og Finnbogastaða. Kolgrafarvík sem er litlu utar er einnig nefnd í heimildum sem brennustaðurinn.

Þrátt fyrir brennurnar linnti ekki harmkvælum fólksins í Trékyllisvík nema um skamma hríð. Næst var Margrét, dóttir Þórðar Guðbrandssonar, borin galdri en hún strauk þá úr Strandasýslu. Á Alþingi 1656 var lýst eftir henni, með þessum hætti:

Vel að meðalvexti, ljósleit, kinnbeinahá, léttfær og skynsöm í máli; kveður nærri kvenna best.

Næstu árin var mikið málastapp vegna Margrétar og henni m.a. dæmdur tylftareiður árið 1659, þar sem helmingur eiðvættanna sór gegn henni. Ljóst er þó að menn hafa verið afar ósammála um sekt hennar. Presturinn í Árnesi skrifaði vitnisburð eða varnarskjal henni til handa og lýsti því afgerandi yfir að hann vildi ekki láta gera henni neinn. Margrét hreinsaði sig loks með tylftareiði í 18. ágúst 1662 þótt strangt til tekið hafi hana skort einn eiðvott. Alþingi leyfði Þorleifi Kortssyni að gera þessa miskunn. Hún sór eiðinn synjunareið fyrir sýslumanni á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð og sönnuðu 12 konur hann með henni. Var hún þá gift séra Tómasi Þórðarsyni á Stað á Snæfjallaströnd og hefur líklega verið í skjóli hans þessi ár. Tómas missti kjól og kall fyrir barneign þeirra fyrir hjónabandið. Svona hljóðaði eiður Margrétar:

Til þess legg eg Margrét Þórðardóttir hönd á helga bók, og það segi ég almáttugum guði, að eg hefi aldrei, úng eða gömul, á allri æfi minni galdur lært, ekki heldur með galdri eður fordæðuskap mein gert eður gera látið nokkurri karlmanns eður kvenmanns persónu, úngri né gamalli, ekki heldur gripum, fénaði eða fjár hlutum nokkurs manns, né það af nokkrum feingið að gera, og í eingum ráðum eður vitund þar um verið, hvorki með Þórði heitnum Guðbrandssyni né neinum öðrum, og að svo stöfuðum eiði.

En fárinu í Trékyllisvík lauk ekki með brennunum þrem eða máli Galdra-Möngu. 1668 minnast annálar aftur á ókyrrleika í Trékyllisvík og sömuleiðis árið eftir. Þá um vorið ákærir Sigmundur Valgarðsson Eyjólf Jónsson fyrir galdra. Þegar tekið er til við að rannsaka málið kemur í ljós að mikið galdraorð fer af Sigmundi sjálfum. Víkurbúar þykjast nú vissir um að annar eða báðir eigi einhverja sök á aðsókninni í kirkjunni. Málið fer loks fyrir þing og þar þykir mönnum líklegt að þeir séu ekki saklausir en þar eð hvorugur játar nokkuð halda þeir lífi. Hins vegar eru þeir hýddir, Sigmundur þrisvar og Eyjólfur tvisvar, „sem næst gangi lífi“.

Ekki var öllum ókyrrleika í Trékyllisvík þó lokið því við árið 1680 segir Kjósarannáll að í Trékyllisvík hafi presturinn ekki getað þjónustað í kirkjunni, en eftir það er fátt að frétta úr Árneshreppi fyrr en í lok 17. aldar þegar harðindi og mannfellir skella yfir.