Jón Rögnvaldsson - brenndur 1625

Sigurður nokkur á Urðum í Svarfaðardal taldi sig verða fyrir hatrammri ásókn sendingar. Eyfirðingnum Jóni Rögnvaldssyni var um kennt og á hann borið að hann hefði vakið upp draug til að vinna Sigurði mein. Uppvakningurinn vann þó ekki á honum en gerði ýmsan annan óskunda eins og að drepa nokkra hesta.

Sýslumaðurinn í Vaðlaþingi, Magnús Björnsson á Munkaþverá, tók málið upp en Jón þvertók fyrir að hafa átt við galdra og bar það af sér að hann ætti nokkra sök á atburðunum á Urðum. Við leit hjá honum fundust blöð með rúnum á og ískyggilegum teikningum. Það nægði til að Magnús dæmdi hann til að brennast á báli og gekk hart eftir því að dómnum yrði fullnægt.

Jón Rögnvaldsson var brenndur á Melaeyrum í Svarfaðardal, án þess að málið kæmi nokkurn tíma fyrir þing, en tuttugu og níu ár liðu þangað til næstu menn létu líf sitt á báli.