Þjófarót

Þjófarót er gras með hvítleitu blómi. Sagt er að hún vaxi upp þar sem þjófur hefur verið hengdur og sé sprottin af náfroðunni úr honum. Aðrir segja að hún sé sprottin upp úr þjófadysinni.

 

Þegar þjófarótin er tekin verður að gæta þess að skaða hana hvergi nema miðrótina því hana verður að slíta. Þeim anga rótarinnar fylgir sú náttúra að hvaða kvikindi sem heyrir hvellinn þegar hún er slitin dettur niður dautt. Þess vegna þarf sá sem tekur rótina að binda flóka eða skinni af skoffíni um eyrun. Aðrir binda spotta í rótina og hinn endann í hund. Þegar kallað er á hundinn hleypur hann af stað og slítur rótina en drepst þegar í stað þegar hann heyrir slithvellinn.

 

Þjófarót dregur að sér grafsilfur úr jörð eins og flæðarmús dregur fé úr sjó. Fyrst þarf þó að stela undir hana peningi bláfátækrar ekkju á milli pistils og guðspjalls á einhverri af þremur stórhátíðum ársins. Rótin dregur eingöngu til sín samskonar pening og lagður var undir hana í fyrstu.