Bikmann Jón er bölvað flón

Snæbjörn Hákonarson, bróðir Hákonar í Brokey, var kraftaskáld. Hann orti vísu þessa við Jón bikmann böðul undir Jökli:

Bikmann Jón er bölvað flón,
brotni í spað hans kjálkafrón;
fái tjón sá fjandans þjón
fyrir nón, það er mín bón.


Svo brá við vísuna, að Jón féll niður með froðufalli, og þurfti Snæbjörn að kveða þrjár vísur til þess að kveða af honum fárið aftur.

Aðrir segja, að Sigurður Breiðfjörð hafi ort vísu þessa í bræði við smið einn, er Jón hét, og hafi hann verið látinn fyrir nón daginn eftir.

Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar,
II. bindi, bls. 129
(eftir Gráskinnu Gísla Konráðssonar)