Halldór Finnbogason - brenndur 1685

Ári eftir að síðasta galdrabrennan fór fram gekk í gildi konungleg tilskipun þess efnis að málum stórbrotamanna skyldi skotið til konungs. Þessi atburður hafði mikil áhrif þótt ekki kæmi hann í veg fyrir að Halldór Finnbogason úr Þverárþingi vestan Hvítár væri brenndur fyrir guðníð á alþingi í júlí 1685.

Hann játaði í votta viðurvist að hafa snúið Faðirvorinu upp á andskotann sem hér segir:

„Skratti vor, þú sem ert í Víti. Bölvað veri þitt nafn. Til komi þitt ríki. Verði þinn vilji, svo á jörðu sem í Víti. Gef oss í dag vort daglegt brauð. Og fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér fyrirgefum vorum skuldunautum."

Einnig kvaðst Halldór hafa snúið skriftamálum upp á Satan með þessu upphafi:

„Minn kæri og verðugi skratti. Eg bið þig gjarnan að heyra mína játning og hugga mig með Sathans orði og segja mér minna synda fyrirgefning í djöfuls nafni."

Halldór viðurkenndi og þuldi guðlastið á þremur dómsþingum, síðast á Þingvöllum þar sem hann var dæmdur „fyrir guðlast og dýrkun djöfulsins" en ekki beinlínis fyrir galdra.

Mailing list